Lokaorðið - Sjá gegnum fingur sér

Ásta F. Flosadóttir átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag
Ásta F. Flosadóttir átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag

Það var komið að bóklega bílprófinu hjá unglingnum. Þá fékk hann fína bílprófssögu hjá afa Flosa.  Afi tók bílprófið nefnilega þegar Willysinn kom, líklega 1947.Og ferlið töluvert ólíkt því sem unglingar ganga gegnum núna.

,,Það þurfti læknisvottorð, ég fór til Árna læknis á Grenivík, þá kom í ljós að ég sá lítið með vinstra auganu, ég vissi það ekki fyrr en þá. Svo ég fór til Helga Skúlasonar augnlæknis á Akureyri. Hann sagði að ég sæi illa og vildi ekki gefa mér vottorð. "Voru þá góð ráð dýr hjá 18 ára sveitamanninum.

Ekki kom til greina að leggja árar í bát. Ferð suður var meira mál þá en núna, en allt var á sig leggjandi. Hann fór til augnlæknis í Reykjavík, sá var ,,góður" augnlæknir, gerði fólki frekar greiða en hitt. Niðurstaðan var að arnarsjón væri á hægra auganu, en vinstra augað væri lakara. Vottorðið gefið út, með það var farið norður og skírteinið fékkst. Áður var hann búinn að fara með Helga á Grund einu sinni inn á Akureyri til að keyra, það var nú allt námið.

,,En síðan þurfti að endurnýja skírteinið og ég fór stundum í sjónpróf, þá átti að halda hendinni fyrir hægra augað. Ég gerði bara svona smá bil milli fingranna og þá náttúrulega sá ég leikandi á spjaldið. Það hefur aldrei verið vandamál með það."

,,Svo hef ég mörgum læknum sagt að það sé mikill kostur að sjá bara með öðru auganu, ég hef aldrei séð tvöfalt, alveg sama hversu fullur ég hef verið. Það hefur bara aldrei komið fyrir mig."

Allt er þetta löngu fyrnt….

 


Athugasemdir

Nýjast