Lokaorðið - Fyrr en misst hefur.

Svanhildur Daníelsdóttir átti lokaorðið í blaði dagsins s.l. fimmtudag
Svanhildur Daníelsdóttir átti lokaorðið í blaði dagsins s.l. fimmtudag

Stundum þegar ég stend undir heitri sturtu eða hækka í ofnunum hugsa ég um hvað myndi gerast ef heita vatnið sem kemur úr iðrum jarðar gengur til þurrðar. „Láttu ekki ljósin loga né vatnið renna að óþörfu. Notaðu ekki meira en þú þarft.“ Þetta lífsstef foreldra minna hefur oft komið upp í hugann undanfarið. Þau lifðu byltinguna úr myrkri og kulda torfkofanna yfir í ljós og hita nútímans.

Á heimili mínu er til húsgang sem var smíðað árið 1917 og heitir servantur. Servantur er lítill skápur sem hafði að geyma vaskafat, tveggja lítra könnu fyrir vatn, sápustykki, lítið handklæði og þvottapoka. Servantur var inni í köldum herbergjum fólks og var bað- og snyrtiaðstaða þess tíma og langt fram á síðustu öld. Í dag er sjálfsagt að hafa tvö baðherbergi í húsum auk heitra potta í húsagörðum, upphituð bílastæði og raflýsingar allt um kring. En lífið er ekki sjálfsagt og lífsgæðin ekki heldur. Allt er í heiminum hverfult og getur snúist án fyrirvara. Það höfum við séð gerast á Suðurnesjum síðustu mánuði.

Við erum vanmáttug því náttúran er að hefja nýtt skeið sem við gleymdum að reikna með og enginn veit hvað framtíðin mun færa. En þó vanmáttug séum getum við þó gert eitt, sama hvar á landinu við búum. Við getum ígrundað hvernig við notum orkugjafana okkar því þeir eru hvorki sjálfgefnir né óþrjótandi. Við getum gengið betur um orku náttúrunnar, því enginn veit hvað átt hefur - fyrr en misst hefur.


Athugasemdir

Nýjast