Lokaorðið - Breiðu bökin

Dýrleif Skjóldal átti lokaorðið i blaðinu s.l. fimmtudag
Dýrleif Skjóldal átti lokaorðið i blaðinu s.l. fimmtudag

Einhvern vegin hefur okkur hjónum alltaf tekist að teljast til þeirra ríku og velmegandi í þessu samfélagi. Þó okkar upplifun hér áður fyrr væri að við ættum vart til hnífs og skeiðar, þá hafa stjórnvöld í gegnum tíðina fundið út að svo sé ekki.

Hér á árum áður þegar ég var heimavinnandi og strákarnir litlir, komst sá elsti ekki inn á leikskóla fyrr en hann var að verða 5 ára því við vorum gift. Þegar sá 3 fæddist lækkuðu barnabæturnar okkar og urðu minni en við fengum með 2 stráka.

Rúnar, sem var fyrirvinna heimilisins var verkamaður hjá ÚA, og ég hin heimavinnandi húsmóðir, með 3 drengi fædda á 3 og 1/2 ári, lærðum það í okkar uppvexti, að borga skuldirnar fyrst og nýta svo afganginn í það sem þurfti. Stöku sinnum dugðu tekjurnar ekki til fyrir nauðsynjum og þá fengum við lán fyrir mat hjá foreldrum okkar en það greiddum við til baka um leið og færi gafst. Og þá var settur á stóreignarskattur og að sjálfsögðu áttum við of mikið í 100 fm. Íbúðinni þrátt fyrir að við værum 5 sem byggjum þar.

Nýjasta útspil stjórnvalda er svo kílómetragjaldið. Haldiði ekki að það komi verst út fyrir fyrir bíleigandann mig, sem á lítinn sparneytinn Spark, sem aldrei hefur verið á nagladekkjum, er orðinn 13 ára og keyptur og notaður af umhverfissinnanum mér!

Já það er gott til þess að vita að samfélagið treysti á að ég sem af mörgum er talin ofborgaður leikskólakennari geti lagt mitt af mörkum til þjóðarbúsins. Ég er nefnilega fylgjandi því að borga skatta og finnst eðlilegt að við, ÞESSI RÍKU, borgi eðlilega meira en þau sem minna mega sín.

Dilla.

 

 

 

Nýjast