Lögreglumenn samningslausir og verða að endurheimta verkfallsréttinn

Stjórn Lögreglufélags Eyjafjarðar hefur sent frá sér ályktun eftir félagsfund sem haldinn var fyrir helgi. Þar kemur fram að lögreglumenn hafi verið kjarasamningslausir í 288 daga og að það sé með öllu óviðunandi. Viðmiðunarstéttir hafi fengið áunnar kjarabætur sem hafi leitt til þess að lögreglumenn hafi orðið eftirbátar þeirra. Þá ályktar félagið einnig að lögreglumenn verði með öllum ráðum að vinna að því að endurheimta verkfallsréttinn sem þeir gáfu eftir á sínum tíma.  

Tilefni félagsfundar Lögreglufélags Eyjafjarðar var að ræða kjaralega stöðu lögreglumanna og þær veiku aðstæður sem þeir búa við gagnvart viðsemjendum sínum, svo og þá neikvæðu, svo ekki sé sagt, lítilsvirðandi framkomu viðsemjandans gagnvart fulltrúum lögreglumanna. Á fundinum urðu miklar og uppbyggjandi umræður um kjara- og réttindamál lögreglumanna almennt, segir í fréttatilkynningu félagsins.

Fundarmenn sendur frá sér eftirfarandi ályktun:

,,Lögreglumenn hafa verið kjarasamningslausir 288 daga og er það með öllu óviðunandi. Á undanförnum árum hafa þær stéttir, sem lögreglumenn bera sig svo oft saman við, fengið áunnar kjarabætur sem hefur leitt til þess að lögreglumenn hafa orðið eftirbátar þessara viðmiðunarstétta. Á þessum tíma hefur álag lögreglumanna aukist og verður ekki unað við það lengur. Þann 30. júní s.l. var kjaradeilu lögreglumanna og viðsemjenda þeirra vísað í gerðadóm og binda lögreglumenn miklar vonir við að niðurstaðan sem er væntanleg  23. september nk. verði lögreglumönnum ásættanleg. 

Þá ályktar Lögreglufélag Eyjafjarðar einnig að lögreglumenn verði með öllum ráðum að vinna að því að endurheimta verkfallsréttinn sem þeir gáfu eftir á sínum tíma en það er mat lögreglumanna að afsal verkfallsréttarins hafi orðið þeim til mikils skaða í kjarasamningum og eigi stóran þátt í þeirri lítilsvirðandi framkomu sem fulltrúar lögreglumanna fá af hálfu viðsemjanda".

Nýjast