Lögreglan leitar enn mannsins sem framdi rán í Fjölumboðinu ehf. við Geislagötu á Akureyri í hádeginu í gær og er málið því enn í rannsókn. Daníel Guðjónsson yfirlögregluþjónn sagðist ekki vita hversu miklum peningum hefði verið stolið en að um væri að ræða nokkur hundruð þúsund krónur. Ræninginn ógnaði starfsmanni í afgreiðslu með úðabrúsa á meðan hann tók peninga úr afgreiðslukassanum. Ræninginn er grannur og lágvaxinn og var klæddur dökkleitum buxum og úlpu með mótorhjólahjálm á höfði og bakpoka. Lögreglan leitaði til almennings í gær í gegnum fjölmiðla og sagði Daníel að nokkrar ábendingar hefðu borist en þær ekki leitt til árangurs. Hann biður fólk sem gæti haft einhverjar upplýsingar um málið að hafa samband í síma 464-7705.