Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur fest kaup á þrívíddarskanna sen gerir lögreglunni kleift að safna mun meiri og nákvæmari gögnum á vettvangi en hingað til hefur verið mögulegt. Á Facebooksíðu lögreglunnar segir að hægt sé að búa til þrívítt módel af aðstæðum, sem hægt sé að kalla fram í tölvu hvenær sem er og nota t.d. til að framkvæma ýmsar mælingar.
Lögreglan lokaði Hörgárbrautinni í skamma stund í vikunni vegna rannsóknar á máli þar sem ekið var á gangandi vegfaranda á Hörgárbraut sl. nóvember. Fékk lögreglan aðstoð frá lögreglumanni úr Tæknideild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem kenndi á skannann, en Tæknideildin hefur notað eins skanna í nokkra mánuði. Tækifærið var síðan notað til að mæla upp vettvanginn við Hörgárbraut á stafrænan hátt.