Lögreglan á Akureyri hefur stöðvað tæplega 1000 ökumenn

Lögreglan hefur að undanförnu verið með sérstakt eftirlit með ástandi ökumanna sem flest lögregluumdæmi landsins taka þátt í í samstarfi við Umferðarstofu. Síðustu daga hafa lögreglumenn á Akureyri stöðvað 963 ökumenn og kannað ástand þeirra og ökutækja einnig.  Einn reyndist undir áhrifum áfengis og annar undir áhrifum fíkniefna.   

Fjörutíu og sex ökumenn höfðu ekki ökuskírteini sitt meðferðis og þrjátíu og þrjú ökutæki voru með biluð ljós.  Fjórir óku of hratt þegar þeir komu á stöðvunarstað lögreglunnar. Þetta eftirlit heldur áfram fram yfir páska og því mega ökumenn búast við að verða stöðvaðir hvenær sem er og ástand þeirra og ökutækja kannað.  Lögreglumenn á Akureyri eru ánægðir með hve fáir hafa ekið undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna og vonast til þess að ökumenn haldi vöku sinni áfram hvað þetta varðar og verði bæði sér og öðrum ökumönnum til fyrirmyndar. Búast má við mikilli umferð á Akureyri og nágrenni yfir páskana og mun lögreglan leggja sig fram um að stuðla að slysalausri páskahátíð.

Nýjast