Mikil harka hefur færst í undirheima Akureyrar á undanförnum árum. Lögreglan fæst við mun alvarlegri glæpi nú en árin fyrir efnahagshrunið, að sögn Gunnars Jóhannssonar, yfirmanns rannsóknardeildar lögreglunnar í bænum. Flest afbrot má rekja til fíkniefnaneyslu, sem hefur færst mikið í aukana. Fjögur vopnuð rán hafa verið framin á Akureyri það sem af er ári. Tvö voru framin af fólki í fíkniefnaneyslu en hin af konu sem á við andleg veikindi að stríða. Þetta kemur fram í frétt á forsíðu Fréttablaðsins í dag.
Lögreglan á Akureyri fylgist vel með þróun skipulagðra glæpasamtaka í bænum í samstarfi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Gunnar segir þó lítið benda til þess að þau séu að festa sig í sessi. "Þó eru vissir einstaklingar að reyna að tengja sig við þessa hópa, til að sýnast stærri en aðrir," segir hann. "Við rukkanir er algengt að menn segist vera tengdir inni mótorhjólahópa, án þess að hafa nokkuð fyrir sér í því." Lögreglan hóf að finna merkjanlegan mun á eðli afbrota í bænum á árunum 2005 og 2006, segir ennfremur í Fréttablaðinu. Gunnar segir að þó sá harði kjarni fíkniefnaneytenda sem stundaði afbrot í mestum mæli hafi verið fangelsaður, komi alltaf maður í manns stað. "Þetta er eins og að standa í flæðarmálinu; þó ein alda fari þá kemur alltaf önnur." Einnig er vitnað í Eirík Björn Björgvinsson, bæjarstjóriaá Akureyri í Fréttablaðinu og segist hann hafa áhyggjur af þróuninni. "Auðvitað veldur það áhyggjum ef forvarnarstarf skilar ekki meiri árangri en þetta," segir hann. "Þá er spurning hvort við þurfum eitthvað að endurskoða þær aðgerðir."
Eins og fjallað hefur verið um í Vikudegi, hefur lögreglan á Akureyri orðið fyrir miklum niðurskurði frá efnahagshruni og kom fram hjá Daníel Guðjónssyni yfirlögregluþjóni að bregðast hafi þurft við því með margvíslegum hætti. Umdæmi lögreglunnar á Akureyri nær um Eyjafjörð en að auki hafa lögreglumenn í umdæminu fengið aukin verkefni víðar á Norðurlandi. Lögreglan á Akureyri þjónar nú rúmum 24 þúsund íbúum og Rannsóknardeild rúmum 36 þúsund íbúum. Hvergi á landinu eru nú fleiri íbúar á bak við hvern lögreglumann. Björn Jósef Arnviðarson sýslumaður benti jafnframt á að umdæmið á Akureyri hefði orðið fyrir meiri niðurskurð en önnur lögregluumdæmi. Björn Jósef sagði þetta verulega bagalegt og koma illa niður á starfsemi lögreglunnar, sem hafi ærin verkefni á sinni könnu og sinni m.a. æ oftar verkefnum víða um Norðurland.