Lögregla haft afskipti af mörgum ökumönnum vegna hraðaksturs

Það sem af er Hvítasunnuhelginni hefur lögreglan á Akureyri verið með sérstakt eftirlit um umferðinni í umdæmi sínu og haft afskipti af fjölda ökumanna og þá sérstaklega vegna hraðaksturs.  Lögreglan hefur m.a. notast við hraðamyndavél við þetta eftirlit sitt og hefur hún tekið 95 myndir af ökumönnum sem hafa ekið of geyst, þar af tæplega 80 innanbæjar á Akureyri.   

Á föstudagskvöldið voru nokkrir ökumenn myndaðir í Öxnadal og sáust þar tölur eins og 127, 135 og sá sem hraðast ók var myndaður á 180 km hraða.  Var mál þess ökumanns tekið fyrir strax daginn eftir og hann sviptur ökuréttindum til bráðabirgða en endanleg afgreiðsla fer fram síðar.  Þessi ökumaður kvaðst enga skýringu geta gefið fyrir háttarlagi sínu í umrætt sinn.  Aðrir ökumennn sem myndaðir voru mega eiga von á bréfi í pósti einhvern næstu daga þar sem þeim er kynnt niðurstaða mælingarinnar sem og upphæð sekta sem almennt er á bilinu 10 - 30.000 krónur.

Á laugardagskvöld varð umferðarslys á Hamarstíg við Engimýri, þar skullu tvær bifreiðar saman sem báður urðu óökufærar á eftir. Tveir aðilar voru fluttir á sjúkrahús úr árekstri þessum en meiðsl þeirra voru ekki talin mjög alvarleg. Aðfaranótt Hvítasunnudags var kona flutt á sjúkrahús eftir að maður hafði barið hana í höfuðið með glasi á einum skemmtistaða bæjarins en hún var talsvert skorin í andliti.  Vitað er hver árásarmaðurinn er og er unnið að rannsókn málsins. Nú um helgina hafa tveir ökumenn verið teknir fyrir grun um ölvun við akstur.

Nýjast