Ljósnet Mílu til allra heimila á Akureyri
Míla hefur undanfarin ár lagt Ljósnet til heimila um allt land. Yfir Ljósnet býður Míla allt að 100Mb/s háhraðanetssamband sem uppfyllir allar þarfir heimila í dag.
Jón R. Kristjánsson framkvæmdastjóri Mílu segir að í haust verði mikilvægum áfanga náð í Ljósnetsvæðingu Akureyrar. „Nú í haust mun Míla klára að tengja Ljósnetið á Akureyri og verða þar með öll heimili komin með aðgang að háhraðnetstengingu um Ljósnetið. Búið er að setja upp götuskápa víða um bæinn, alls 89 skápa, auk þess sem þjónustan er veitt frá 3 símstöðvum í bænum“ segir Jón.
Til að fá tenginguna þarf notandinn að hafa samband við sitt fjarskiptafélag og óska eftir Ljósnetinu. Samhliða vinnu við að klára tengingar hefur Míla einnig hafið uppfærslu búnaðar á Akureyri sem er ætlað að veita flestum notendum aðgang að 100Mb/s niðurhalshraða.
Háhraðanet hratt til allra
Ljósnet er tenging sem byggir á svokallaðri VDSL tækni. Þetta eru algengustu háhraðnetstengingar í Evrópu og þar eru þessar tengingar gjarnan nefndar „Fiber“ tengingar þ.e. ljósleiðaratengingar, enda er Ljósnet ljósleiðaratenging alla leið að götuskáp og fyrirliggjandi kopar nýttur rétt síðasta spölinn inn til notanda.
Jón segir að almennt sé staða Ljósnetsvæðingar í þéttbýli á landsbyggðinni sú að búið er að setja upp Ljósnet á öllum þéttbýlisstöðum út frá símstöðvum. Fyrir flesta minni þéttbýlisstaði dugir þetta til að þjóna viðkomandi bæjarfélagi. Á stærri þéttbýlisstöðum og á stöðum þar sem vegalengd til heimila frá símstöð er mikil þarf að leggja í viðbótar aðgerðir. Þá eru settir upp götuskápar (einskonar smásímstöð) sem tengdir eru með ljósleiðara og þjóna svæði í kringum sig. Þannig er hægt að ná til þeirra heimila sem eru langt frá símstöð. „Ljósnet er einfaldasta og fljótlegasta leiðin til að veita háhraðanetstengingar til allra og er það orðið aðgengilegt yfir 90% heimila á Íslandi. Með Ljósnetinu er að auki kominn ljósleiðari í nágrenni við öll heimili og auðveldar það framkvæmd á næsta skrefi í þróuninni sem verður að bjóða notendum ljósleiðara alla leið“ segir Jón.
Árlega er gerður samanburður á fjarskiptaþjónustu á Norðurlöndunum og nokkrum Eystrasaltslöndum og hefur Ísland verið þar langfremst meðal jafningja þegar kemur að útbreiðslu háhraða nettenginga til heimila. Ljósnetið og dreifing þess um landið er megin ástæða þess að staða háhraðanettenginga á Íslandi er mun betri en í samanburðarlöndunum.
Á suðvesturhorninu er búið að setja upp götuskápa fyrir svo til alla íbúðabyggð og unnið er að þéttingu atvinnusvæða. Áhersla Mílu undanfarin 2 ár hefur verið á stærri staði utan suðvesturhornsins. Mest uppbygging hefur verið á Akureyri sem Míla mun klára nú í haust eins og fyrr segir. Unnið er að uppbyggingu á fjölmörgum þéttbýlisstöðum í viðbót s.s. Vestmannaeyjum, Egilsstöðum, Húsavík ofl. Enn eru staðir eftir sem Míla leggur áherslu á að klára eins hratt og kostur er.
Framtíðin
Bandvíddarþörf heimila mun halda áfram að aukast. 100Mb/s mun þó uppfylla þarfir heimilanna næstu árin. „Hraða Ljósnets verður hægt að auka en Míla mun leggja áherslu á að leggja ljósleiðara í stað koparendans samhliða annarri uppbyggingu fjarskipta“ segir Jón. „Míla mun bjóða notendum í náinni framtíð að skipta koparenda út fyrir ljósleiðara og fá þar með ljósleiðara alla leið. Míla mun bjóða þann hraða sem notendur þurfa til framtíðar bæði með Ljósneti og Ljósleiðara Mílu“.
Ljósnet og Ljósleiðari Mílu eru eina kerfið sem er alveg opið fyrir öll fjarskiptafyrirtæki að bjóða þjónustu sína yfir. Uppbygging innviða frá símstöð og inn til notenda dugar ekki ein og sér. Hraðinn þarf að skila sér áfram á svokölluðum stofnleiðum sem liggja milli símstöðva, milli landshluta og áfram til útlanda. Samhliða uppbyggingu frá símstöð heim til notenda er Míla að byggja upp þau kerfi sem þarf til að tryggja næga flutningsgetu stofnleiða svo þörf heimila fyrir háhraðnetstengingu skili sér alla leið heim í stofu.