Ljósmyndir Péturs í 60 ár

Pétur Jónasson ljósmyndari. Mynd/Framsýn
Pétur Jónasson ljósmyndari. Mynd/Framsýn

Pétur Jónasson ljósmyndari var útnefndur listamaður Norðurþings 2020. Að því tilefni opnar Pétur ljósmyndasýninguna Ljósmyndir Péturs í 60 ár föstudaginn 27. ágúst klukkan 18. Sýningin er í aðalsal Safnahússins á Húsavík og stendur út september. Sýningin er í boði Norðurþings og listamannsins.

Pétur hefur frá upphafi ferlis síns verið einhver framsæknasti ljósmyndari landsins og rekur enn Ljósmyndastofu sína sem hann opnaði 1962 á Húsavík. Hún er því í dag elsta ljósmyndastofa landsins.

Pétur hefur ávallt verið meðal þeirra fremstu í að tileinka sér nýja tækni og framfarir er tengjast ljósmyndun og framköllun. Í gegnum tíðina hefur hann því bæði sinnt faglegum hliðum síns starfs til jafns við þær listrænu með einstakri natni og næmni fyrir minnstu smáatriðum. Margar kynslóðir Húsvíkinga hefur hann myndað á stofu sinni, í skólum bæjarins, í Húsavíkurkirkju, í leikhúsinu eða við önnur tilefni. 


Athugasemdir

Nýjast