Ljósaganga og samstaða í átaki gegn kynbundnu ofbeldi

Í tilefni af alþjóðlegu 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi verður efnt til ljósagöngu og samstöðu  á Ráðhústorgi á morgun, fimmtudaginn 9. desember.  Gengið verður með kyndla frá Akureyrarkirkju kl. 16:30. Þann 25. nóvember var  16 daga átaki gegn kynbundu ofbeldi ýtt úr vör í 19. sinn út um allan heim.  Á þessum árum hefur átakið unnið að því að draga kynbundið ofbeldi fram í dagsljósið sem mannréttindabrot.  

Hópar og samtök um allan heim hafa nýtt átakið til að krefjast aðstoðar og stuðnings til handa brotaþolum, til að styrkja forvarnastarf og þrýsta á um breytingar á löggjöf til að bæta réttarstöðu þeirra.  Þá hefur átakið verið nýtt til að stuðla að því að alþjóðlegum mannréttindareglum sé beitt til að vinna gegn kynbundu ofbeldi sem mannréttindabroti, heilbrigðisvandamáli og ógn við mannfrelsi og frið um allan heim. Alþjóðleg mannréttindavernd og réttindi kvenna eiga undir högg að sækja og því er 16 daga átak árið 2010 tileinkað baráttu gegn kynbundnu ofbeldi á átakasvæðum.

Margt hefur áunnist undanfarin ár í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi; íslensk stjórnvöld hafa gert ítarlega aðgerðaáætlun gegn ofbeldi á heimilum og kynferðisofbeldi og aðgerðaáætlun gegn mansali. Brýnt er að fyrirhugaður niðurskurður hins opinbera bitni ekki á framkvæmd þessara áætlana því vitað er að efnahagsþrengingar geta leitt til aukins kynbundins ofbeldis og bitna oft harðar á konum.

Á Ráðhústorgi  flytur Gréta Ómarsdóttir stutt ávarp, Alda Karen Ólafsdóttir Hjaltalín í 2. bekk í MA flytur  ljóð og sönghópurinn  Ungar  raddir flytur nokkur lög. Þau  sem standa að ljósagöngunni og samstöðunni  eru: Samfélags- og mannréttindaráð Akureyrarbæjar, Jafnréttisstofa, Aflið - samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, Zontaklúbburinn Þórunn Hyrna, Zontaklúbbur Akureyrar, Norðurlandsdeild Ljósmæðrafélags Íslands, Norðurlandsdeild Hjúkrunarfélags Íslands

Nýjast