Í tilefni af alþjóðlegu 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi verður efnt til örþings í Kvos Menntaskólans á Akureyri í dag föstudag kl. 16.30. Gengið verður með kyndla frá Menntaskólanum að Ráðhústorgi kl. 17.00 þar sem fram fer samstaða með brotaþolum ofbeldis. Í Kvosinni mun Katrín Björg Ríkarðsdóttir, framkvæmdastjóri samfélags- og mannréttindadeildar Akureyrarbæjar, kynna aðgerðaáætlun bæjarins gegn kynbundnu ofbeldi og ofbeldi gegn börnum, Aflið mun kynna starfsemi sína og nemendur Menntaskólans stíga á stokk.
Alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi má rekja aftur til ársins 1991 og er þetta því í 20. skiptið sem átakið er haldið á heimsvísu. Dagsetning átaksins var valin til að tengja á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi. 25. nóvember er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gegn konum og 10. desember er hinn alþjóðlegi mannréttindadagur. Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis. Í ár er alþjóðlegt þema átaksins kynbundið ofbeldi í stríði og vopnuðum átökum en jafnframt er sjónum beint að heimilisofbeldi því aðeins þegar friður er á heimilum næst friður í heiminum. Hér heima höfum við því einbeitt okkur að yfirskrift átaksins "Heimilisfriður - heimsfriður". Margt hefur áunnist undanfarin ár í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi; íslensk stjórnvöld hafa gert ítarlega aðgerðaáætlun gegn ofbeldi á heimilum og kynferðisofbeldi og aðgerðaáætlun gegn mansali. Brýnt er að fyrirhugaður niðurskurður hins opinbera bitni ekki á framkvæmd þessara áætlana því vitað er að efnahagsþrengingar geta leitt til aukins kynbundins ofbeldis.
Að ljósagöngunni og samstöðunni standa: Jafnréttisstofa, Aflið - samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, Samfélags- og mannréttindadeild Akureyrarbæjar, Rannsóknarmiðstöð gegn ofbeldi, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Akureyri, Zontaklúbburinn Þórunn Hyrna, Zontaklúbbur Akureyrar og Veitingahúsið Bautinn. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.
30. nóvember
Kl. 18:00 Kvikmyndasýning í Sambíói á verðlaunamyndinni Pray the devel back to hell Aðgangur ókeypis en tekið við frjálsum framlögum til styrktar Aflinu, Samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi
2. desember
Kl.12-13:30 Ekki líta undan Hádegisstund í safnaðarheimili Glerárkirkju með Guðrúnu Ebbu Ólafsdóttur og Sigrúnu Sigurðardóttur, hjúkrunarfræðingi. Samlokur og kaffi. Allir velkomnir
3. desember
Kl. 14-17 Leikhópurinn Þykista kynnir gangverkið "Griðastaður-Stríðsvöllur" í betri stofunni á Götubarnum. Aðgangur er ókeypis. Gestir eru hvattir til að horfa þar til þeir sjá.
7. desember
Kl. 12 Fundur á Hótel KEA Karlar til ábyrgðar Úrræði fyrir karla sem beita ofbeldi
10. desember - Mannréttindadagurinn
Kl. 13 Mannréttindakaffi í Eymundsson , Vigdís Grímsdóttir les úr bók sinni Trúir þú á töfra og fjallað verður um mannlega reisn