Lítur þokkalega vel út með jólaverslun

„Þetta lítur allt saman ágætlega út og menn eru sáttir við það sem komið er,“ segir Ragnar Sverrisson formaður Kaupmannafélags Akureyrar og nágrennis um jólaverslun. Tíð hefur verið sérlega góð undanfarið og færð á vegum eins og best verður á kosið, þannig að margt hefur verið um manninn í bænum undanfarið og þá einkum um helgar. Ragnar segir að á sama tíma í fyrra, um og upp úr miðjum nóvember hafi verið snjór, leiðindaveður og ófærð, þannig að ólíku sé saman að jafna.

„Veður og færð skipta gríðarlega miklu máli, þegar tíð er góð eins og núna er mikið um fólk úr nágrannabyggðum á ferli í bænum, raunar allt frá Djúpuvík og að Djúpavogi ef því er að skipta,“ segir Ragnar. Hann kveðst þokkalega bjartsýnn á komandi jólaverslun, hljóðið í kaupmönnum sé alveg bærilegt. „Það er enginn að væla neitt og menn búast við að þetta verði ágætt,“ segir hann.

Vilborg Jóhannsdóttir kaupmaður í Centro, sem bæði er með verslun í miðbænum og á Glerártorgi segir að jólaverslun leggist vel í sig, en kaupmenn eru sem óðast að klæða verslanir sínar í jólabúning og stefna að því að ljúka við að skreyta fyrir komandi helgi.  Hún segir íbúa úr nágrannasveitum dýrmæta viðskiptavini og því skipti góð færð á vegum og gott veður miklu máli.  Mikið hafi verið um aðkomufólk í bænum liðnar helgar, jafnan sé mikið um að vera í bænum, í menningar,- íþrótta-, og félagslífi og fólk því á ferðinni í ýmsum erindagjörðum. 

„Verslun er afþreying, fólk sem hingað kemur gefur sér tíma til að líta við í verslunum bæjarins og sjá hvað í boði er.  Að mínu mati er úrvalið ótrúlega gott og fjölbreytt og við getum verið stolt af bænum okkar,“ segir Vilborg.  „Ég er nokkuð bjartsýn á  jólaverslun í ár og það er alltaf gaman þegar mikið er að gera eins og í kringum jólin.“

Nýjast