Litla landið

Huld Hafliðadóttir
Huld Hafliðadóttir

Það er gott að búa á Íslandi, almennt. Hreint loft, óspillt náttúra og nóg pláss fyrir alla. Heilbrigðiskerfið er almennt gott, en þegar ég skrifa almennt gott, þá á ég við að út á við er það gott og það fagfólk sem heldur því uppi vill allt fyrir þegna þessa lands gera, en eitthvað er að bresta innan þess. Það sama á reyndar við um fleiri kerfi, s.s. velferðarkerfið, samanber gríðarlega aukningu innlagna á BUGL, biðlista sem sér ekki fyrir endann á og síaukna notkun kvíða- og annarra geðlyfja.

Í svo litlu samfélagi sem Ísland er getum við verið nokkuð viss um að allir tengist á einhvern hátt, lítið land og fámenn þjóð, frændur og bræður.

Og það er einmitt eitt við þetta litla land sem mætti huga að. Það er að gera ekki allt að persónulegri deilu og/eða að taka ekki öllu persónulega.

Þegar einhver tjáir skoðun sína, er oftar en ekki hlaupið í manninn en ekki málefnið, þá ekki síst ef fólk er ósammála eða rök þrjóta. Þá virðist fátt eftir annað en að níða náungann og finna honum allt til foráttu. Slík hegðun er auðvitað merki um óöryggi, ótta og/eða minnimáttarkennd þess sem á annan ræðst, en það sem verra er að þessi hegðun virðist fá að dafna óáreitt í þessu litla landi okkar.

Að skoða eigin líðan áður en ráðist er á samborgara með orðum á prenti eða í munni er góð regla. Svolítið eins og að renna yfir öryggisbúnað fyrir brottför. Hvernig líður mér? Er ég í jafnvægi? Og ef við erum ósammála og eigum erfitt með að sýna skilning, er það besta sem við getum gert í stöðunni að sýna samkennd, kynna okkur málin og að lokum gera okkar besta til að vera málefnaleg í stað þess að láta tilfinningarnar hlaupa með okkur í gönur.


Athugasemdir

Nýjast