Listaverk afhjúpað á Fiskideginum

Á Fiskideginum mikla á Dalvík, laugardaginn 8. ágúst, var afhjúpað járn- og glerlistaverkið Vitinn í nýja menningarhúsinu Bergi. Listaverkið er eftir Höllu Har, gler- og myndlistakonu. Hún gaf Dalvíkurbyggð verkið til minningar um Friðleif Jóhannsson (f.1873 d.1967), sem var afi eiginmanns hennar Hjálmars Stefánssonar. Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri, veitti listaverkinu viðtöku fyrir hönd bæjarins. Friðleifur var útgerðarmaður á Dalvík og Siglufirði um og eftir þarsíðustu aldamót og lét sig málefni bæjarfélaganna miklu varða. Hann hóf fyrstur, í félagi við bróður sinn Jóhann, vélbátaútgerð á Dalvík árið 1906 og hefur verið reist minnismerki um það í fjörunni þar sem þeir lentu fyrsta vélbáti sínum Viktori. Friðleifur var sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Svarfdæla frá 1904-1920 og 1921-1927. Hann var einnig formaður fyrstu fræðslunefndar á Dalvík.

Fjöldi afkomenda Friðleifs og Sigríðar Stefánsdóttur konu hans auk annarra gesta á Fiskideginum mikla voru viðstaddir athöfnina. Listaverkið stendur í anddyri Bergs menningarhúss.

Nýjast