Það var með þónokkurri eftirvæntingu sem undirrituð settist niður í Rýminu í frekar þröngt röðuðum sal framundan var að kynnast, á 90 mínútum án hlés, lífi þeirra Lísu Sveins og Lísu Konráðs í hlutverkum Sögu Geirdal Jónsdóttur og Sunnu Borgar. Þessar tvær leikkonur þarf vart að kynna, í það minnsta ekki fyrir þeim sem hafa sótt leikssýningar Leikfélags Akureyrar í gegnum tíðina. Báðar hafa leikið til fjölda ára hjá leikfélaginu og seinni ár leikstýrt (það á þó frekar við um Sögu en Sunnu) fyrir ýmis leikfélög í nágrenni Akureyrar. Það er leikstjórinn Jón Gunnar Þórðarson sem fékk það hlutverk að leikstýra Sunnu og Sögu og er þetta í fyrsta skipti sem leiðir þeirra þriggja liggja saman. Verkið um þær Lísu og Lísu er eftir hina írsku Amy Conroy sem er samkvæmt leikskránni og leit á netinu upprennandi hæfileikakona bæði í ritun verka og sem leikkona á sviði. Það er Karl Ágúst Úlfsson sem þýðir og staðfærir verkið og gerir það vel.
Engin faðmlög,engir kossar, engin ást, engin umhyggja
Textinn var almennt lipur og skondnar setningar m.t.t. staðfæringa. Lýsingin er í höndum Þórodds Ingvarssonar og hæfir sýningunni. Verkið segir frá Lísu Sveins og Lísu Konráðs. Þær eru lesbíur á sjötugsaldri sem hafa búið saman í 30 ár. Það hafa þær gert án þess þó að koma formlega út úr skápnum og hafa þurft að þola allan þann tíma hvísl og vangaveltur, s.s. eru þær bara vinkonur eða kannski e-ð meira? Þær hafa passað sig að sýna ekki tilfinningar sínar á almannafæri, engin faðmlög, engir kossar, engin ást, engin umhyggja. Taka ekki sénsinn á að verða að umtalsefni á tímum þar sem samkynhneigð var feimnismál og er reyndar því miður enn! Áhorfandinn fær innsýn inn í hvernig líf þeirra Lísu og Lísu hefur verið með því að hlýða á þær segja sögur af sínum kynnum, hvernig samband þeirra þróast og fyrir hvaða spurningu þær standa frammi fyrir og þurfa nú að taka afstöðu til. Samskiptin fara fram í samræðu þeirra á milli en einnig er talað til áhorfandans og það virkar vel sem tenging, ekki síst þar sem leikmyndin býður upp á mikla nálægð. Það reynir án efa mikið á leikkonurnar að leika við þessar berskjölduðu aðstæður þegar fylgst er með þeim frá öllum hliðum. Þeim Sögu og Sunnu tekst vel upp við að skapa trúverðugar persónur. Konur á besta aldri sem elska hvor aðra, glíma við flóknar tilfinningar sem einkenna allt lífið og væntumþykjan sem þær hafa til hvor annarrar skilar sér til áhorfandans. Það er varla annað hægt en að þykja vænt um þær og reiðast aðstæðum fyrir þeirra hönd hvers vegna fordómar í garð þeirra sem elska manneskju af sama kyni? Hvaða rétt höfum við til að ákveða hvernig rétt sé að elska?
Gryfja, kannski fordómagryfja
Leikmynd og búningar eru eftir Móeiði Helgadóttur og hún tengir leikmyndina afskaplega vel verkinu. Áhorfendur sitja allt um kring,horfa niður til þeirra líkt og samfélag sem fylgist með þeim Lísu og Lísu, fastar í einhverskonar gryfju kannski fordómagryfju? Það skapast nánd (jafnvel þrengsl á stundum) sem skiptir máli. Sem leikstjóra tekst Jóni Gunnari vel upp við að sjá heildarmyndina og fá allt til að vinna og tala saman.
Það er vel þess virði að heimsækja Lísurnar í Rýminu, þessu frábæra húsi Leikfélags Akureyrar. Verkið á erindi til okkar allra og kallar á umræður um stöðu samkynhneigðra og hvaða viðhorf við öll sem myndum samfélag höfum. Samgleðjumst einfaldlega, burtséð frá kynhneigð, þeim sem elska og eru elskaðir. Samgleðjumst Lísu og Lísu að hafa fundið hvor aðra!
Hulda Sif Hermannsdóttir, Akureyri