Líneik Anna Sævarsdóttir Alþingismaður, sem búsett er á Fáskrúðsfirði býður sig fram í 1.-3. sætið á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. Þetta kemur fram í tilkynningu sem hún sendi frá sér í gær.
Hún er fædd 1964 og uppalin á Fljótsdalshéraði en hefur búið á höfuðborgarsvæðinu, á Vesturlandi og býr nú í Fjarðabyggð. Líneik er líffræðingur með kennsluréttindi og hefur lengst af starfað við fræðslumál, hún hefur setið á þingi frá 2013. Þá hefur hún unnið að sveitarstjórnarmálum og öðrum félagsstörfum.
„Ég legg áherslu á að vinna með hagsmuni allra Íslendinga að leiðarljósi, frá sjónarhóli þess sem hefur lifað og starfað í Norðausturkjördæmi meirihluta ævinnar. Ég er tilbúin að hlusta á fjölbreytt sjónarmið og leggja mitt að mörkum til að finna lausnir sem byggja á grunngildum lýðræðis, jafnræðis og samfélagslegrar ábyrgðar.
Ég er tilbúin að starfa að þeim málum sem eru stærst og brýnust hverju sinni og jafnframt er ég tilbúin að vinna að málum sem oft virðast léttvæg og fá litla athygli.
Ég lít þannig á að stærstu og brýnustu málin sé efnahagur ríkisins, einstaklinga og fyrirtækja. Jafnrétti og jafnræði íbúa landsins er afar mikilvægt og þar eru samgöngur í víðasta skilningi lykilþáttur. Hófsama nýtingu náttúruauðlinda tel ég grundvöll íslensks efnahagslífs, og samspil manns og náttúru vera viðvarandi viðfangsefni stjórnmálanna. Mín sérstöku baráttumál er gott aðgengi að menntun, bættar samgöngur, jafnrétti í víðum skilningi og umhverfismál.
Ég er tilbúin að leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að stuðla að liðsheild og góðum vinnuanda í kringum þau verkefni sem ég sinni, hvort sem er innan flokksins, í nefndum þingsins eða á öðrum vettvangi.
Á þingi hef ég verið fyrsti flutningsmaður á tveimur þingsályktunartillögum um Fjarnám á háskólastigi og náttúrustofur, verið meðflutningsmaður á þingsályktunum og þingmálum, lagt fram fyrirspurnir um ólík mál og verið framsögumaður á málum fyrir hönd nefnda. Tíminn hefur verið lærdómsríkur og tel ég mig hafa færi á að bæta árangur minn í starfi, fái ég til þess umboð.
Með framboðinu vil ég gefa Framsóknarfólki í Norðausturkjördæmi valkosti við röðun á lista flokksins og ég tel mikilvægt að konur og karlar raðist jafnt í fyrstu sæti allra lista flokksins,“ segir hún í tilkynningunni.