Lifðu Jónas Egils og Helgi Grani eingöngu á þrjósku og þvergirðingshætti?

Jónas Egilsson glaðbeittur t.v. enda nýbúinn að landa vænum löxum úr Laxá neðan Æðarfossa. T.h. er B…
Jónas Egilsson glaðbeittur t.v. enda nýbúinn að landa vænum löxum úr Laxá neðan Æðarfossa. T.h. er Baldur sonur hans, en þeir feðgar eru báðir látnir. Mynd: JS

Þeir félagar og höfuðkempur, Helgi Bjarnason í Grafarbakka og Jónas Egilsson í Árholti, voru eitt sinn í „klössun“  eins og þeir orðuðu það, á Sjúkrahúsinu á Húsvík. Þeir lágu að sjálfsögðu saman á stofu og þar var ekki leiðinlegt. Blaðamaður nokkur heimsótti þá kumpána sem voru kátir, létu fljóta í kviðlingum og þóttust spakvitrir um ýmis tól og tæki læknavísinda, en einkum þó blóðþrýstingsmæla.

Að sögn Helga var sú mæta maddama Maddý (Margrét Árnadóttir) að mæla blóðþrýsting Jónasar með sérstökum hágæðamæli og svo undarlega brá við að Jónas mældist algjörlega þrýstingslaus! Helgi heimtaði að fá að skoða mælinn og sagði svo: „Grunaði mig ekki, þetta er nákvæmlega sama tegundin og ég var mældur með á Akureyri á dögunum og hann sýndi ekki heldur neinn blóðþrýsting.“

Þá tilkynnti Maddý þeim félögum að þeir ættu báðir að vera dauðir, svona með öllu þrýstingslausir. En sjálfsagt lifðu þeir bara á eintómri þrjósku og þvergirðingshætti. Um þetta kvað Jónas:

Ganga fyrir glópskunni,

gömlum vana háðir.

Þrífast bara á þrjóskunni,

þrýstingslausir báðir.

 

Þessir horsku heiðursmenn eru nú báðir látnir og Margrét blessunin einnig. JS

 


Nýjast