Líf og leikir barna á sýningu Minjasafnsins á Akureyri

Sólskinsdagar í lífi barna eru margir. Góðu stundirnar með uppáhalds leikfangið í herberginu, í tómstundastarfi eða í skólanum eru mörgum enn hugleiknar. Á sýningu Minjasafnins á Akureyri;  Allir krakkar, allir krakkar... líf og leikir barna, sem opnar í dag kl 14.00, gefst gestum safnins kostur á því að dusta rykið af gömlum minningum og deila með sér upplifun æskuáranna til afkomenda sinna.  

Hvernig leit fyrsta leikfangið út sem ég eignaðist? Hver var fyrsta platan sem ég spilaði? Hvernig leit fyrsta skólastofan mín út og fórum við í raðir fyrir utan skólann? Svörin við spurningunum munu án efa verða til þegar fullorðna fólkið rifjar upp góðar minningar með börnum sínum um sólskinsdaga æskunnar. Sýningin sem tekur á völdum þáttum í lífi barna byggist á munum, ljósmyndum og minningabrotum. Saman skapa þessir þættir skemmtilegan ramma sem án efa mun draga upp mismunandi myndir í huga þeirra sem kíkja í heimsókn og ýta undir samtöl kynslóða á milli.

Ungur töframaður frá Akureyri, Einar einstaki, mun opna sýninguna á laugardaginn með nokkrum velvöldum töfrabrögðum. Á sýningunni geta börn á öllum aldri brugðið sér í gervi, leikið sér og sest á skólabekk á sama tíma og minningaflóðið rennur um hugann. Opið er á Minjasafninu á Akureyri alla daga á sumrin fram til 15. september frá kl. 10-17.

Nýjast