Léttir vill ekki halda Landsmót en styður umsókn Funa

Á aðalfundi Hestamannafélagsins Léttis á Akureyri í síðustu viku, var samþykkt að draga til baka áður samþykkta tillögu um að Léttir sæktist eftir að halda Landsmót árið 2014 á félagssvæði sínu að Hlíðarholti. Í framhaldinu hófst á aðalfundinum umræða um hvort Léttir ætlaði að sækja um Landsmót 2016 og eftir góðar umræður var gengið til atkvæða og var samþykkt að sækjast heldur ekki eftir Landsmóti 2016. Hins vegar samþykkti aðalfundurinn að styðja umsókn Hestamannafélagsins Funa um að halda Landsmót á Melgerðismelum 2014.

Í Vikudegi í síðustu viku kom fram að fjórir aðilar hefðu sótt um að halda Landsmót hestamanna 2014. Funi býður fram Melgerðismela, Gullhylur býður fram Vindheimamela og Rangárbakki Gaddastaðaflatir en fjórði aðilinn, Léttir, hefur ákveðið að draga umsókn sína til baka, sem fyrr segir. Á sameiginlegum félagsfundi hestamannafélaganna Funa og Léttis á Akureyri sem haldinn var fyrr í þessum mánuði um framtíð landsmótshalds í Eyjafirði var samþykkt yfirlýsing  þar sem fram kemur það álit félaganna að röðin sé komin að Eyjafirði og að næsta landsmót sem haldið verður á Norðurlandi skuli vera þar.

 

Nýjast