Lestur á áskriftarblaðinu Vikudegi eykst um 3% á milli ára og nær til tæplega þriðjungs bæjarbúa á Akureyri eða 28%. Þetta kemur fram í könnun Gallups sem var framkvæmd fyrir Einingu-Iðju stéttarfélag í Eyjafirði. Spurt var: Hverja af eftirtöldum staðarfjölmiðlum hefur þú lesið, flett eða horft á, á síðastliðnum vikum?
Dagskráin hefur yfirburði yfir þá staðarmiðla sem ná til fólks en rúmlega 90% svarenda fletta Dagskránni í hverri viku. Er það hækkun um 3% milli ára. Lestur á N4 Dagskráinni eykst sömuleiðis um 3% á milli ára og sögðust 76,7% svarenda fletta blaðinu vikulega. Báðum blöðunum er dreift í öll hús á Akureyri.
Einnig eykst áhorf á N4 um 3% en 56,5% horfa á sjónvarpsstöðina vikulega. Könnunin var framkvæmd dagana 11. október til 18. nóvember 2016 og var um síma og netkönnun að ræða. Úrtakið var 1500 manns úr félagaskrá Einingar Iðju, fjöldi svarenda var 752 og þátttökuhlutfall 50,1%.