Lektor og verkefnastjóri í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri

Háskólinn á Akureyri. Mynd: Daníel Starrason
Háskólinn á Akureyri. Mynd: Daníel Starrason

Gengið hefur verið frá ráðningu dr. Andrew Paul Hill í stöðu lektors í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri og mun hann hefja störf þann 1. janúar n.k.

Hann lauk doktorsprófi í félagsvísindum frá De Montfort háskóla í Leicester í Bretlandi og hefur gegnt þar stöðu lektors síðan 2006. Frá þeim tíma hefur hann stýrt námsbraut í lögreglufræði við háskólann. Andrew er menntaður lögreglumaður og starfaði á þeim vettvangi í tæp fjörtíu ár, fyrst sem almennur lögreglumaður og síðar sem varðstjóri. Á seinni hluta starfsferils síns innan lögreglunnar kom hann að menntun og starfsþjálfun lögreglumanna. Andrew hefur tekið virkan þátt í uppbyggingu háskólakennslu í lögreglufræði við De Montfort háskólann og fjórum sinnum hlotið sérstaka viðurkenningu fyrir árangur í kennslu.

Fyrr í haust var gengið frá ráðningu Rósamundu Baldursdóttur í starf verkefnastjóra í lögreglufræði og mun hún hefja störf á næstu dögum. Rósamunda hefur lokið BA og ML gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík ásamt því að hafa lokið námi sem lögreglumaður frá Lögregluskóla ríkisins og námi fyrir stjórnendur í lögreglu frá Endurmenntun Háskóla Íslands. Rósamunda hefur undanfarið starfað sem löglærður fulltrúi hjá Bílastæðasjóði Reykjavíkurborgar en áður starfaði hún m.a. sem varðstjóri í fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra, sem lögregluvarðstjóri og sem almennur lögreglumaður.

„Það er mikill fengur fyrir Háskólann á Akureyri að fá Andrew og Rósamundu til starfa við hina nýju námsbraut í lögreglufræði. Framundan er mikið uppbyggingar- og þróunarstarf og er því sérstaklega ánægjulegt að háskólinn fái fólk til starfa sem hefur alþjóðlega reynslu, sem og reynslu af lögreglustörfum hér á landi,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.

 

Nýjast