Leita að styrkjum fyrir sameiningartáknið

Kýrin verður tákn Eyjafjarðarsveitar.
Kýrin verður tákn Eyjafjarðarsveitar.

Stjórn Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar leitar nú að styrkjum fyrir verkefni sem félagið er að vinna að um þessar mundir er varðar sameiningartákn sveitarfélagsins. Ferðamálafélagið hefur fengið til liðs við sig listakonuna Beate Stormo eldsmið í Kristnesi en hugmyndin var að finna sameiningartákn fyrir sveitarfélagið; eitthvað stórt og flott og eitthvað sem allir vildu koma og sjá. Þar sem gríðarlega mikil mjólkurframleiðsla er í Eyjafjarðarsveit var ákveðið að tákn sveitarinnar yrði mjólkurkýr. 

Niðurstaðan er risastór járnskúlptúr af kú sem verið er að búa til þessa dagana og Beate Stormo fengin í verkið. Hún er margfaldur Íslandsmeistari í eldsmíði og Evrópumeistari. Beate er búin að hanna kúna og verður hún hol að innan með víravirkismynstri á hliðunum, sem m.a. á að vísa í víravirkið á íslensku þjóðbúningunum. Einnig verða borðar með textum úr sögum og ljóðum um kýr. Kýrin heitir Edda en Edda þýðir formóðir og er það tilvísun í Eddukvæðin. „Til þess að ráðast í þetta risaverkefni þurfum við styrki.

Nokkur fyrirtæki hafa styrkt verkefnið en betur má ef duga skal,“ segir í tilkynningu frá Ferðamálafélaginu. Ákveðið var að ráðast í hópfjármögnun og er hún farin af stað en þeir sem vilja styrkja við verkefnið er bent á Facebooksíðuna Gardur66.


Athugasemdir

Nýjast