Leikur sem við eigum að vinna
Ellefta umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu hefst í kvöld með tveimur leikjum. Á Þórsvelli tekur Þór/KA á
móti botnliði Grindavíkur kl. 18:30 og Þróttur R. tekur á móti toppliði Stjörnunnar kl. 19:15. Þór/KA er áfram í
fjórða sæti deildarinnar með 19 stig eftir markalaust jafntefli gegn ÍBV á útivelli sl. sunnudag og er stigi á eftir Eyjastúlkum sem hafa 20
stig í þriðja sæti. Grindavík hefur aðeins eitt stig á botninum og því talsverðar líkur á heimasigri á
Þórsvelli í kvöld.
„Ég veit ekki hvort hægt sé að tala um skyldusigur en við erum betra lið en þær og erum ofar á töflunni,” segir Hlynur Svan Eiríksson þjálfari Þórs/KA. „Grindavík getur verið stórhættulegt lið á góðum degi en þetta er leikur sem við verðum að vinna ef við ætlum að halda í við efstu liðin. Það er erfitt prógramm hjá okkur í næstu leikjum svo að við megum ekki missa af stigum þessum leik,” segir Hlynur.
Varnarmaðurinn sterki Bojana Besic verður líklega ekki með Þór/KA í kvöld vegna meiðsla sem hún hlaut í upphafi leiksins gegn ÍBV. Hins vegar kemur Manya Makoski aftur inn í lið norðanmanna eftir að hafa tekið út leikbann í síðustu umferð.