Leikskólar verði sameinaðir

Í undirbúningi er að leggja niður stöður deildarstjóra og sameina leikskóla á sama tíma og hlutverk skóla- og aðstoðarskólastjóra verður styrkt. Þetta hefur þegar verið samþykkt í skólanefnd bæjarins. Skólanefnd hefur samhljóða samþykktað  tillögur stýrihóps um endurskoðun stjórnkerfis skóla á Akureyri verði lagaðar fram til umræðu og óskar eftir ábendingum um þær.

 Tillögurnar voru kynntar á síðasta fundi skólanefndar, en samkvæmt þeim á m.a. að fara varlega í að sameina skóla milli skólastiga nema þá í tilraunaskyni sýni stjórnendur skóla vilja til þess.  Gert er ráð fyrir að grunnskólar séu heildstæðir með að jafnaði 450 til 500 börn, undantekning þar á er Oddeyrarskóli með um 220 börn.  Ekki á að raska hverfaskiptingu með því að sameina grunnskóla.  Hvað leikskóla varðar er miðað við að stærð þeirra sé á bilinu 90 til 150 börn.Stýrihópurinn lagði í skýrslu sinni fram bæði almennar tillögur og sértækar. 

Lagt er til í hinum almennu tillögum að leikskólar í bænum verði sameinaðir til að falla að gefnum stærðarviðmiðunum, þá er lagt til að stöður deildarstjórar í leikskólum verði lagðar niður og hlutverk skólastjóra og aðstoðarskólastjóra verði styrkt.  Þá er lagt til að ráðinn verði starfsmaður, sérfræðingur í mannauðsstjórnun til að styðja skólastjórnendur í starfsmannamálum.  Samræma á innkaup og stjórn skólamötuneyta og taka upp samræmdan matseðil sem taki mið af gæðastuðlum Lýðheilsustofnunar.Síðusel og Holtakot sameinist og Flúðir og Pálmholt. Með sameiningu Síðusels og Holtakots yrði til stofnun með 100 rýmum, en þar eru nú samtals 97 börn, segir í hinum sértæku tillögum stýrihópsins sem leggur til að starfsemi leikskólanna tveggja geti í fyrstu skipst á tvo staði.  Þá er nefnt að með sameiningu Pálmholts og Flúða verði til stofnun með 134 rýmum, en þar eru nú alls 140 börn.  Skólarnir séu staðsettir hlið við hlið og því ætti að vera auðvelt að koma starfseminni fyrir í óbreyttu fyrirkomulagi.

Krógaból er í leiguhúsnæði í Glerárkirkju og verður næstu 10 ár, en hópurinn leggur til að byggt verði yfir leikskólann við Síðuskóla sem þá verði með rými fyrir 120 börn.  Þá er horft til þess að byggt verði við Síðusel og Lundarsel þannig að í framtíðinni mun hvor skóli um sig rúma allt að 100 börn.  Sunnuból er einnig í leiguhúsnæði en samningur rennur út í lok árs 2013 og leggur hópurinn til að leigusamningur verði ekki framlengdur, en leikskólinn lagður niður og börnum sem í honum eru verði deilt á milli Lundarsels og Naustatjarnar, enda búi þau flest hver í hverfum sem liggja að þessum leikskólum.

Nýjast