Leikmenn og þjálfari Þórs fjarverandi í leiknum gegn FH
Það var heldur þunnskipaður hópur Þórsara sem sótti FH heim í Pepsi-deildinni sl. sunnudag, en leiknum lauk með sigri FH, 2:0. Vitað var að Gunnar Már Guðmundsson yrði ekki með þar sem hann er lánsmaður hjá FH, Janez Vrenko var í banni og Jóhann Helgi Hannesson frá vegna meiðsla.
Ekkert við þessu að gera en það sem vekur hins vegar athygli er að Atli Sigurjónsson og Aleksandar Linta, lykilmenn í liðinu, fengu báðir frí í þessum umrædda leik vegna annarra verkefna, auk þess sem Páll Viðar Gíslason þjálfari liðsins var fjarverandi. Atli og Páll Viðar voru staddir í Hollandi þar sem Atli æfði með NEC Nijmegen og Linta fékk einfaldlega frí til þess að hitta fjölskyldu sína í Serbíu. Á meðan tapaði Þór þriðja leiknum í röð og færðist nær fallsæti.
„Þetta var afar óheppilegt,“ segir Unnsteinn Jónsson formaður knattspyrnudeildar Þórs, spurður um málið. „Varðandi Atla að þá hentaði bara ekki annar tími. Við hefðum getað gripið inn í en þetta er maður sem stefnir á atvinnumennsku og það skiptir máli fyrir okkur að hann fari út. Þetta var ekki góð tímasetning, ég viðurkenni það fúslega,“ segir hann.
Nánar er rætt við Unnstein um málið í nýjasta tölublaði Vikudags.