Leikið inn á sumarflatir á sunnudag

Jólamót GA verður haldið á sunnudag ef veðurspá gengur eftir. Mynd: gagolf.is
Jólamót GA verður haldið á sunnudag ef veðurspá gengur eftir. Mynd: gagolf.is

Veðurblíðan hefur verið  með þvílíkum eindæmum á Akureyri í vetur. Rósir hafa verið að springa út og dæmi er um að bændur séu að slá tún sín í desember sem má teljast harla óvenjulegt.

Þetta óvenjulega veðurfar virðist einnig vera að hleypa lífi í golfáhugamenn sem öllu jöfnu liggja í vetrardvala á þessum tíma. Jaðarsvöllur á Akureyri iðagrænn ennþá og þess vegna hefur Golfklúbbur Akureyrar (GA) ákveðið að halda Jólamót á sunnudag. Spilaðar verða 10 holur, þ.e holur 1 - 12 að undanskildum holum 5 og 6.

Ágúst Jensson framkvæmdastjóri GA sagði í samtali við Vikudag að það hafi reyndar verið haldin mót áður á þessum árstíma. „Það voru haldin hérna nýársgolfmót í kringum 1990 en þá var snjóföl yfir og kalt. Ég held að þetta sé í fyrsta sinn, ef af verður - að það sé spilað inn á iðagræna green, ég held að það sé alveg einstakt,“ segir hann og bætir því að það sé auðvitað háð því að veðurspá gangi eftir.

Þar sem birtu gætir aðeins lítils hluta úr degi eru einungis spilaðar tíu holur og er hámarksfjöldi keppenda 52. Áætlað er að mótið hefjist klukkan 11:30.

 


Athugasemdir

Nýjast