Stjórn og framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar hafa tekið ákvörðun um að Jón Páll Eyjólfsson leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar starfi ekki út uppsagnarfrest sinn heldur ljúki störfum nú þegar. Byggist sú ákvörðun á því að ekki ríkir lengur traust um hans störf hjá félaginu.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu á vef Menningarfélagsins.
„Ákvörðun þessi er tekin að vel athuguðu máli og ríkir einhugur um hana. Framkvæmdastjóri vinnur nú að nauðsynlegu skipulagi vegna þeirra verkefna sem eru framundan á vegum LA,“ segir ennfremur í tilkynningu.
Jón Páll hafði sagt starfi sínu lausu fyrir áramót sem leikhússtjóri en hann tilkynnti uppsögnina í langri færslu á Facebooksíðu sinni. Jón sagði ástæðu uppsagnarinnar vera skort á fjármagni frá Akureyrarbæ og lítinn skilning með fulltrúa bæjarins á mikilvægi Leikfélagsins. Hann hefur gegnt starfi leikhússtjóra LA um þriggja ára skeið eða frá desember 2014.
Jón Páll hugðist leikstýra Sjeikspír í vor en ljóst er að ekkert verður af því.
Uppfært: Tengist #metoo-byltingunni
Rúv greinir frá því að uppsögn Jóns Páls tengist #metoo-byltingunni og staðfestir Jón Páll það. Hann segir atvikið hafa gerst fyrir 10 árum og ekki innan veggja LA.