Leikfélag VMA frumsýnir Bót og betrun í kvöld

Örn Smári Jónsson, Svavar Máni Geislason og Franz Halldór Eydal í hlutverkum sínum í Bót og betrun  …
Örn Smári Jónsson, Svavar Máni Geislason og Franz Halldór Eydal í hlutverkum sínum í Bót og betrun Mynd VMA

 Leikfélag VMA frumsýnir  farsann Bót og betrun í Gryfjunni í VMA í leikstjórn Sögu Geirdal Jónsdóttur, í kvöld kl. 20. Bót og betrun fjallar um Erik Swan sem eftir að hafa verið sagt upp í vinnunni grípur til þess ráðs að svíkja peninga út úr kerfinu á mjög svo vafasömum forsendum. Hann flækist óþægilega mikið í lygavefnum sem hann hefur spunnið og horfir fram á að spilaborgin hans hrynji með látum.

Tíu leikarar koma fram í sýningunni en í það heila koma að henni fast að fjörutíu manns.  Leikfélag VMA hefur á undanförnum árum tekist á við stóra og metnaðarfulla söngleiki sem hafa verið sýndir í Menningarhúsinu Hofi og Gryfjunni. Má þar nefna Ávaxtakörfuna, Grís og Lísu í Undralandi.

 Krakkarnir hafa verið mjög áhugasamir og skemmtilegir

 Nú er fetuð ný slóð hjá félaginu með uppfærslu á ekta farsa sem hin reynda leikkona og leikstjóri, Saga Jónsdóttir, leikstýrir. Hún á að baki ófáa farsana sem leikkona og leikstjóri en hefur aldrei áður leikstýrt framhaldsskólanemum. Saga segir það mikla áskorun fyrir nemendur að takast á við farsa, enda sé hann krefjandi leiklistarform.„En krakkarnir hafa verið mjög áhugasamir og skemmtilegir og þetta hefur gengið vel,“ segir Saga.

 Auk frumsýningar hafa þrjár aðrar sýningar verið ákveðnar; laugardagskvöldið 4. febrúar og síðan um aðra helgi, 10. og 11. febrúar.

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast