Saga sagði að vel hafi gengið að raða í hlutverk enda mikill áhugi fyrir því að taka þátt í starfi leikfélagsins. Hún sagði að leikarahópurinn saman standi af eldra og reyndara fólki eins og Sesselju Ingólfsdóttur og Guðmundi Steindórssyni og svo aftur yngra og óreyndara fólki. "Þessi hópur er óvenju samheldin og skemmtilegur og þau eru að standa sig frábærlega vel." Þá hefur öll undirbúningsvinna, eins og við sviðsmynd, ljós og búninga gengið eins og best verður á kosið að sögn Sögu. Hallmundur Kristinsson hannar leikmynd, Ingvar Björnsson sér um ljósahönnun og Guðmundur Óskar Guðmundsson hefur yfirumsjón með smíðavinnu. "Þetta verk er gamall og gróinn dúndrandi dillandi farsi. Ekkert ofbeldi, ekkert blóð og engin misnotkun. Þetta verk hefur verið ákaflega vinsælt í gegnum tíðina, sem og önnur leikrit þessara höfunda og margir muna eftir Karlinum í kassanum."
Hvað er það sem vekur hlátur?
Saga segir að talað sé um að farsi sé erfiðasta leikformið. "Sjálfri hefur mér alltaf fundist skemmtileg þessi glíma - hvað er það sem vekur hlátur? Af hverju er hlegið í kvöld en ekki næsta kvöld, eru það áhorfendur sem eru öðruvísi, eða er textinn fluttur öðruvísi? Ég hef verið að spá svolítið í þetta og atvinnuleikarar hafa oft átt í erfiðleikum með þetta form leiklistar."
Leikritið "Stundum og stundum ekki" var frumsýnt á Íslandi í Iðnó árið 1940. Rúmum þrjátíu árum síðar var stykkið sýnt í eilítið breyttri útgáfu hjá Leikfélagi Akureyrar við góðan orðstír árið 1972. Á sínum tíma þótti verkið fara langt út yfir velsæmismörk sökum fáklæddra leikara en ekki þótti við hæfi að sjá í bert hold á sviði. Nú eru allir hvattir til að mæta og leggja mat á siðferðiskennd Leikfélags Hörgdæla.
Verkið fjallar um Hörgdal, embættismann hjá ríkinu, sem árum saman hefur starfað hjá útbreiðslumálaráðuneytinu af samviskusemi og dugnaði. Hörgdal er heiðarlegur maður sem má ekki vamm sitt vita en engu að síður, eða kannski þess vegna, er ítrekað gengið fram hjá honum við ráðningar í æðri stöður. Frændsemi og bitlingar enda lagðir til grundvallar stöðuveitingum frekar en vel unnin störf. Kunnuglegt? En í fyllingu tímans er rósemdarmanninum Hörgdal nóg boðið og þegar tækifæri til að láta að sér kveða fellur honum skyndilega í skaut, taka hjólin að snúast með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Leysa hlutina vel
Þrátt fyrir aldur verksins á það einkar vel við í dag, kannski einkum og sérílagi í ljósi atburða síðustu vikna og mánaða í landinu okkar. Alls komast um 100 manns á hverja sýningu á Melum. Umtalsverðar endurbætur voru gerðar á húsnæðinu fyrir fáum árum, sem Saga segir að hafi tekist vel. "Þetta er samt allt svolítið lítið, sviðið er lítið og aðstaðan baksviðs er erfið. Það er oft alveg kraftaverk hvernig fólkinu tekst t.d. að leysa það að skipta um svið. Þá þurfa leikarnarir gjarnan að fara niður í búningsherbergi, hlaupa þaðan út í alls kyns veðrum og inn í húsið á öðrum stað."
Sem fyrr segir er frumsýning á fimmtudag en ráðgert er að sýna á föstudögum og laugardögum á næstunni og að stundum verði tvær sýningar á laugardögum og stundum ekki. Saga segir að mikill áhugi sé fyrir sýningunni og er þegar uppselt á nokkrar sýningar.