Leikfélag Akureyrar frumsýnir gamanleikinn 39 þrep

Leikfélag Akureyrar frumsýnir nk. föstudag, 39 þrep, eða The 39 Steps, nýlegan gamanleik sem byggður er á hinni þekktu kvikmynd Alfred Hitchcock, eftir samnefndri skáldsögu John Buchan. Verkið hlaut hin virtu Olivier verðlaun sem besta gamanleikritið árið 2007 og tvenn Tony verðlaun árið 2008. Sýningin hefur gengið fyrir fullu húsi á West End í þrjú ár.  

Leikstjóri er María Sigurðardóttir, og leikarar Björn Ingi Hilmarsson, Atli Þór Albertsson, Jóhann G. Jóhannsson og Þrúður Vilhjálmsdóttir. Í leikritinu segir frá hinum dekraða glaumgosa Richard Hannay, sem er vanur ljúfu lífi bresku yfirstéttarinnar, en sogast skyndilega inn í æsispennandi atburðarás þar sem morð, njósnarar, brjálaðir prófessorar, Skotar og vitaskuld íðilfagrar konur kom við sögu. Söguhetjan Hannay er meðal fyrstu hefðarmanna-hetjanna í bókmennta- og kvikmyndasögunni, og má segja að hann hafi, ásamt Sherlock Holmes, rutt brautina fyrir seinni tíma hetjur á borð við James Bond.

Það er óhætt að segja að leikgerðin sé ekki öll þar sem hún er séð, en hana skrifaði breski háðfuglinn Patrick Barlow. Í þessum nýstárlega og sprenghlægilega spennu-gamanleik takast fjórir hugrakkir leikarar á við 139 hlutverk, í einhverjum hröðustu, mest spennandi og fyndnustu 100 mínútum sem sést hafa á leiksviði.

Nýjast