Leikfélag Akureyrar

Sigrún Björk Jakobsdóttir skrifar

Aðalfundur Leikfélags Akureyrar var haldinn þann 3. nóvember síðastliðinn. Eins og komið hefur fram gekk rekstur leikfélagsins illa á síðasta leikári.  Hafa margar ávirðingar verið bornar á mig vegna þess og því tel ég nauðsynlegt að að skýra mína afstöðu. Ég var kosin í stjórn LA þann 2. desember 2010 og mætti áminnfyrsta stjórnarfund í félaginu í janúar 2011. Helsta ástæða mikils taprekstur LA á síðasta leikarári var sýningin Rocky Horror sem byrjað var að sýna í september 2010 og því búið að sýna þá sýningu með tilheyrandi tapi í nokkra mánuði áður en ég kem inn í stjórn félagsins.  Á aðalfundi fyrir ári síðan var lagður fram ársreikningur sem sýndi góða stöðu félagsins, en rétt er að taka fram að hann var lagður fram á þeim fundi án þess að vera undirritaður af stjórn eða endurskoðendum félagsins sem er fáheyrt. Um það voru fundarmenn ekki upplýstir.  Engar upplýsingar voru lagðar fram á þeim fundi um hið mikla tap sem fyrirsjáanlegt var  á rekstri félagsins vegna RH.

Það komu um 15.000 gestir á Rocky Horror. Kostnaður við sýninguna nam 87 milljónum króna. Miðasala skilaði 34 milljónum og því var tap félagsins vegna Rocky Horror 53 milljónir króna. Það átti að setja Rocky Horror upp á leikárinu 2009, en var frestað til haustsins 2010.  Mikil kostnaður hlaust af þeirri frestun meðal annars vegna ráðningu á leikurum, leikstjóra, hönnunar og kynningarkostnaði og fleira.  Á aðalfundi í desember 2010 var ekki upplýst um það kostnað, né hann færður í ársreikning félagsins. Rocky Horror skilaði samfélaginu miklum tekjum og mikil straumur ferðamanna lá til Akureyrar þau misserin.  Peningar hverfa ekki og tap LA er í annarra manna vösum í dag.

Alls komu rúmlega 29 þúsund gestir á sýningar LA sem er með betri árangri sem LA hefur náð ef að fjöldi gesta er notaður sem mælikvarði. Undanfarin ár hefur LA verið rekið með tapi án þess að fyrrverandi stjórn félagsins hafi gripið inn í. Meðaltalsframlög til LA hafa rýrnað um 25% á núverandi verðalagi sem hefur aukið á vandann. Leikfélög eru sérstök að því leyti að áætlanir eru lagðar fram 6-9 mánuðum fyrir hvert leikár og var sú stjórn sem kosin var á aðalfundi í desember 2010 bundin af ákvörðunum fyrri stjórnar.   Mikið hefur verið horft á hlut þessar stjórnar  og undarlega hljótt hefur verið um ábyrgð fyrri stjórnar félagsins á þeim hremmingum sem nú ganga yfir félagið.

Því miður er það svo að engar upplýsingar eru lagðar fram fyrir núverandi stjórn um þennan slæma rekstur fyrr en komið er fram á vorið 2011 af  forsvarsmönnum félagsins og því hafði hún engan möguleika til að bregðast við. Þeir hafa nú látið af störfum.

Þau tíðkast nú hin breiðu spjótin og ég er ekki ókunn þeim.  Ég hef verið spurð því ég axli ekki ábygð á þessari stöðu sem upp er komin og láti af störfum í stjórn félagins, sem og reyndar allir aðrir sem í stjórn voru á síðasta ári. Þegar okkur var ljóst hversu staðan var alvarleg, var strax brugðist við.  Akureyrarbær var upplýstur um stöðuna þegar hún lá fyrir og farið í hagræðingaraðgerðir.  Ljóst er að það var leikfélaginu um megn að ráðast í  hinu viðamiklu sýningu í Hofi og LA verður að sníða sér stakk eftir vexti og sýna í Hofi þær sýningar sem sannarlega henta og geta staðið undir sér í því glæsilega húsnæði.  Það náðist samkomulag við Akureyrarbæ um áframhaldandi rekstur LA sem hefur verið kynnt í fjölmiðlum. Mun nýkjörin stjórn félagsins í samstarfi við Akureyrarbæ nú setjast yfir og reyna sitt besta við að tryggja rekstur LA til framtíðar.   Því er mín afstaða sú að laga það sem brotið er og leggja mitt af mörkum til þess.   Okkur sem voru kosin í stjórn nú þykir annt um félagið og teljum mikilvægt að gefast ekki upp þó á móti blási og hefur verið treyst af félagsmönnum LA til áframhaldandi starfa fyrir félagið.  Saga Leikfélags Akureyrar spannar 100 ár og árið 2013 fögnum við 40 ára afmæli atvinnuuleikhúss. Það hafa skipst á skin og skúrir í rekstrinum en erfiðleikar sem spanna stutt tímabil mega ekki opna fyrir umræðu um að leggja af starfsemi atvinnuleikhúss á Akureyri.

Höfundur er formaður stjórnar Leikfélags Akureyrar.

 

Nýjast