Leikarinn Guðmundur Ólafsson er sextugur í dag

Samstarfsfólk Guðmundar hjá LA óskar afmælisbarninu til hamingju með daginn.
Samstarfsfólk Guðmundar hjá LA óskar afmælisbarninu til hamingju með daginn.

Leikarinn góðkunni Guðmundur Ólafsson er sextugur í dag, 14.desember. Af því tilefni tók samstarfsfólk hans hjá Leikfélagi Akureyrar óvænt á móti Guðmundi á Hótel Kea í morgun, söng fyrir hann afmælissönginn og fékk sér morgunmat með afmælisbarninu. Um þessar mundir er Guðmundur að æfa sjóræningjaleikritið Gulleyjan sem Leikfélag Akureyrar er að setja upp í samstarfi við Borgarleikhúsið.

Á meðal þeirra sem tóku á móti Guðmundi voru félagar hans í Gulleyjunni, þau Sigurður Sigurjónsson, Björn Jörundur Friðbjörnsson, Þórunn Clausen, Kjartan Guðjónsson, Þóra Karítas Árnadóttir, Ívar Helgason og Einar Aðalsteinsson. Þá mun Guðmundur sjálfur standa fyrir einleikstónleikum í Ólafsfjarðarkirkju í kvöld, þar sem hann sjálfur syngur og Sigursveinn Magnússon spilar undir á píanó.  Tónleikarnir hefjast klukkan 20:30 og er aðgangseyrir 1500 krónur.

Guðmundur Ólafsson fæddist í Ólafsfirði 14. desember 1951. Hann stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri 1967-71 og útskrifaðist síðan sem íþróttakennari frá Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni 1972. Hann kenndi við Barnaskóla Eskifjarðar veturinn 1972-73 og síðan við Barnaskóla Akureyrar 1973-74. Guðmundur fluttist til Kaupmannahafnar 1974 og innritaðist í dönsku við Kaupmannahafnarháskóla og vann jafnframt lagerstörf. Á árunum 1975–1977 stundaði hann nám í leikhúsfræðum við Hafnarháskóla. Þaðan fór hann í Leiklistarskóla Íslands og útskrifaðist 1981.

Upp frá því hefur Guðmundur verið iðinn við leiklist og unnið við fjöldan allan af leikritum ásamt hinum ýmsu kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Það þarf vart að kynna hann fyrir Akureyringum því hann hefur oft stigið á svið Leikfélags Akureyrar. Núna síðast lék hann í Svörtu Kómedíuna, Rocky Horror, Þögli þjónninn og Falið fylgi. Einnig er Guðmundur verðlaunaður rithöfundur því hann fékk Íslensku barnabókaverðlaunin 1986 fyrir bók sína Emil og Skundi og svo aftur 1998 fyrir bók sína Heljarstökk aftur á bak.

Síðan hafa komið út tvær aðrar bækur um ævintýri Emils og Skunda auk þess sem kvikmyndin Skýjahöllin er byggð á sögunum. Nokkrar aðrar barna- og unglingasögur eftir Guðmund hafa litið dagsins ljós. Guðmundur hefur einnig samið nokkur leikverk, handrit að sjónvarpsefni og unnið að leikgerðum. Að auki liggja eftir hann þýðingar og greinar og sögur eftir hann hafa birst í blöðum, tímaritum og safnritum. Guðmundur er kvæntur og þriggja barna faðir.

 

 

Nýjast