Leigubílstjórar fúlir

„Menn eru virkilega ósáttir og finnst vegið að starfsstéttinni,“ segir Gylfi Ásmundsson leigubílstjóri og formaður BSO á Akureyri. Harðnandi samkeppni er á meðal atvinnubílstjóra vegna komu skemmtiferðaskipa til Akureyrar. Gylfi segir gremju gæta meðal leigubílstjóra, þeim finnst eins og þeim hafi verið bolað út af bryggjunni. „Við vorum með aðstöðu á Oddeyrarbryggjunni nálægt skipunum eins og tíðkast alls staðar í heiminum. En við lítum svo á að okkur hafi hreinlega verið ýtt til hliðar og fyrir því standi ný rútufyrirtæki. Við erum mjög óhressir og höfum rætt þetta við hafnaryfirvöld, en þau segist lítið geta gert.

Missa af kúnnum

Gylfi bendir á að með þessu missi leigbílstjórar af mörgum kúnnum og sumarið hafi verið afspyrnuslakt. Hann segir mikinn samhug vera meðal leigubílstjóra á Akureyri. „Ferðamenn fara í þá bíla eða rútur sem þeir sjá fyrst, sem er eðlilegt. Þetta kemur niður á okkur og er mikið rætt á meðal leigubílstjóra. Menn eru fúlir. Það virðist einnig eitthvað æði hafa gripið um sig og nánast hverjir sem er geta komið niður á bryggju og tekið upp farþega. Menn hækka bara upp jeppana sína og virðast geta fengið leyfi út á það eitt,“ segir Gylfi.

Nýjast