Leigjendur á Borgum fá reikning fyrir fasteignagjöldum
Leigjendur húsnæðis á Borgum við Háskólann á Akureyri hafa nú nýverið fengið í hendur reikning frá Fasteignum ríkisins vegna ógreiddra fasteignagjalda . Um er að ræða samningsbundna greiðslu, en það sem komið hefur leigjendum á Borgum á óvart er að reikningur kemur í einu lagi og með einum gjalddaga.
Fasteignaskattur var ekki lagður á skólahúsnæði þegar húsið á Borgum var byggt, en tekinn upp síðar. Um er að ræða fasteignagjöld fyrir árin 2007-2011 og er heildargreiðsla stofnana að Borgum á þessu tímabili rúmar 46 milljónir króna. Fram kemur í leigusamningi að leigjendur skuli greiða slíkan skatt verði hann tekinn upp. Fasteignafélagið Reitir sem á og rekur húsnæðið að Borgum sendi af einhverjum ástæðum ekki út reikninga fyrir fasteignagjöldum til Fasteigna ríkisins, fyrr en nú nýverið. Á dögunum urðu miklar umræður um hátt leiguverð á Borgum og hljóp þá kergja í viðræður sem staðið höfðu yfir m.a. um lækkun á leigu.
"Reitir eru í fullum rétti á að innheimta þessar greiðslur, þær eru samningsbundnar og eiga ekki að koma leigjendum á óvart. Það sem ef til vill kemur mönnum í opna skjöldu er að reikningurinn er sendur út í einu lagi og með einum gjalddaga. Menn höfðu vonast til að fá svigrúm, þannig að hægt væri að greiða þetta yfir lengri tíma," segir Úlfar Hauksson forstöðumaður fjármála Háskólans á Akureyri. Háskólinn er með um það bil helming alls húsnæðis á Borgum á leigu og nemur hlutur hans rúmum 20 milljónum króna.