Laugafiskur veitir fjárhagslegan stuðning til augnaðgerða í Nígeríu

Laugafiskur, dótturfyrirtæki Brims hf., hefur í mörg ár veitt fjárhagslegan stuðning til augnaaðgerða í Nígeríu, en Afríkuríkið er einn stærsti kaupandi þurrkverkunarinnar. Slíkur stuðningur, sem fleiri fyrirtæki koma að, þar á meðal íslensk og færeysk fiskvinnslufyrirtæki, hefur mikil áhrif í samfélaginu eins og sjá má á þeim fjölda aðgerða sem tekinn var saman í  nóvember sl.  

Þá kom í ljós að augnsjúkdómasetrið í Calabar, höfuðborg fylkisins, hafði náð að framkvæma 12000 augnaðgerðir, sjúklingum algjörlega að kostnaðaralausu. Það eru góðgerðarsamtökin Tulsi Chanrai sem stýra framkvæmdunum sjálfum, en aðgerðirnar fara fram á sjúkrahúsi borgarinnar. Samtökin standa vörð um        grundvallar stólpa bættrar lýðheilsu í Cross River State fylki í suðurhluta Nígeríu, skanna   fátækustu svæðin, meta þörfina og fylgja aðgerðum eftir. Þau hafa verið starfandi frá 2003 þegar þau settu upp fyrsta læknasetrið þeirra og gátu á hálfu ári, sinnt liðlega þúsund sjúklingum. Íbúafjöldi fylkisins er 2.66 milljón manns og um það bil 27.þúsund manns eru greindir með alvarlega augnsjúkdóma, þar af 65% af læknanlegum sjúkdómum eins og vagli og gláku. Ný tilfelli greinast um 2660 á hverju ári.

Ekki er að furða að ríkisstjórnin hefur viðurkennt ómetanlegt vægi verkefnisins og hefur ráðgert að styðja við það og færa út kvíarnar enn frekar, segir á vef Brims. Oftar en ekki veltur líf heillar fjölskyldu á starfi eins fjölskyldumeðlims, föður eða móður, og bagginn sem fylgir því að sá eða sú hina sama, blindist, verður gríðarlegur í lífi einstaklinganna, en einnig samfélagsins í heild. Það er því ástæða til að minna á að norðrið er þannig að lyfta grettistaki í aðstæðum fátækra í suðri, með framlagi sem oft virðist ekki mikið. Nánar er hægt að kynna sér málið á vefslóðinni: http://www.tcfnigeria.org/

Nýjast