10. febrúar, 2008 - 20:49
Fréttir
Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra hefur þegið boð stjórnar Landssamtaka landeigenda á Íslandi um að koma á aðalfund
samtakanna sem hefst á Hótel Sögu kl. 15:00 á fimmtudaginn kemur, 14. febrúar. Ráðherra fjallar þar um stöðu
þjóðlendumála af sjónarhóli ríkisvaldsins. Þá mun Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður flytja fundarmönnum
erindi um afréttarmálefni fyrir dómstólum. Fundarboðendur vænta þess að fjármálaráðherra mæti til leiks með
nýtt útspil af hálfu ríkisins í átt til samkomulags í deilunni við landeigendur, ekki síst í ljósi þess að
núna fyrir lok febrúarmánaðar birtir ríkisvaldið þjóðlendukröfur sínar á vestanverðu Norðurlandi (svæði 7,
vestan Fnjóskár og austan Blöndu).
Það fylgir sögu að í desember 2007 fór fjármálaráðherra fram á það við óbyggðanefnd að skipta
svæði 7 í tvennt og taka einungis syðri hluta þess fyrir nú. Óbyggðanefnd samþykkti erindið og því mun ríkið lýsa
kröfum á svæði sem í megindráttum markast af Fnjóská í austri, að norðan af Hörgárdal og Öxnadal og
Öxnadalsheiði í Eyjafirði, og Norðurárdal og Norðurá í Skagafirði en vestan þess af norðurmörkum Eyvindarstaðaheiði og
Blöndu. Stjórn LLÍ hefur ákveðið að efna til funda um stöðu þjóðlendumála víða um land eftir aðalfund samtakanna.
Áformaðir fundarstaðir eru Borgarnes, Búðardalur, Staðarflöt, Varmahlíð, Akureyri, Breiðumýri, Þórshöfn, Egilsstaðir og
Rangárvallasýsla. Tveir stjórnarmenn mæta á hvern fund.
Landssamtök landeigenda á Íslandi voru stofnuð á Hótel Sögu 25. janúar 2007 í kjölfar geysifjölmenns fundar sem
sveitarfélög og landeigendur á austanverðu Norðurlandi (svæði 6) boðuðu til í Mývatnssveit 30. nóvember 2006, eftir að
þjóðlendukröfur ríkisins þar höfðu verið birtar. Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra mætti á fundinn og
átti orðastað við landeigendur. Í Landssamtökum landeigenda á Íslandi eru alls á fimmta hundrað einstaklinga, sveitarfélaga og annarra
lögaðila. Tilgangur samtakanna er að „berjast fyrir því að eignarréttur landeigenda að jörðum þeirra og landareignum sé virtur
í þjóðlendumálinu eins og kveðið er á um í stjórnarskrá Íslands og í mannréttindasáttmála
Evrópu."