Hinn 1. janúar 2012 voru landsmenn alls 319.575 og hafði fjölgað um 1.123 frá sama tíma árið 2011. Þetta jafngildir fjölgun landsmanna um 0,4%. Konum fjölgaði nokkuð meira en körlum eða um 0,5% á móti 0,2%. Fólksfjölgun var á höfuðborgarsvæðinu, en þar voru íbúar 1.253 fleiri 1. janúar 2012 en fyrir ári. Það jafngildir 0,6% fjölgun íbúa á einu ári. Hlutfallslega varð fólksfjölgunin hins vegar mest á Suðurnesjum, þar sem fjölgaði um 0,7%, eða 154 frá síðasta ári. Fólki fjölgaði einnig á Norðurlandi eystra, um 12 einstaklinga (0,4%), og um 50 (0,4%) á Austurlandi. Fólksfækkun var á fjórum landsvæðum, mest á Norðurlandi vestra þar sem fækkaði um 194 manns, eða 2,6%. Umtalsverð fólksfækkun var einnig á Vestfjörðum en þar fækkaði um 82, eða 1,2%. Minni fólksfækkun var á Suðurlandi (0,2%) og Vesturlandi (0,1%).
Sveitarfélög
Hinn 1. janúar 2012 voru alls 75 sveitarfélög á landinu og hafði þeim fækkað um eitt frá fyrra ári. Sveitarfélögin eru afar misstór. Alls var íbúatala fimm sveitarfélaga undir 100, en undir 1.000 í 42 sveitarfélögum.
Þéttbýlisstaðir
Hinn 1. janúar 2012 voru alls 59 þéttbýlisstaðir á landinu með 200 íbúa eða fleiri. Þeim hafði fækkað um 2 frá fyrra ári. Auk þeirra voru 35 smærri byggðakjarnar með 50-199 íbúa, en fjöldi þeirra stóð í stað frá fyrra ári. Alls bjuggu 298.813 manns í þéttbýli hinn 1. janúar 2012 og hafði þá fjölgað um 999 frá 1. janúar 2011. Í dreifbýli og smærri byggðakjörnum bjuggu alls 20.762.
Framfærsluhlutfall og kjarnafjölskyldur
Framfærsluhlutfall var 68,4% í ársbyrjun 2012 en var 68,1% ári áður. Framfærsluhlutfall er annars vegar hlutfall ungs fólks (19 ára og yngra) af fólki á vinnualdri (2064 ára) og hins vegar eldra fólks (65 ára og eldra) af fólki á vinnualdri. Hækkun þessa hlutfalls stafar einkum af því að fólki fækkar á vinnualdri.
Kjarnafjölskyldur voru 77.621 hinn 1. janúar 2012 en 77.370 ári áður. Hinn 1. janúar voru 3.904 einstaklingar í hjónabandi sem ekki voru í samvistum við maka. Hér er um að ræða einstaklinga sem skilið hafa að borði og sæng sem og hjónabönd þar sem annar makinn hefur flutt lögheimili sitt til útlanda.
Nánari grein fyrir búsetuþróun og breytingum á mannfjöldanum verður gerð í Hagtíðindum sem áætlað er að gefa út 3. apríl n.k., segir í frétt frá Hagstofunni.