Landsmálablöðin mynduð á Amtsbókasafninu

„Við erum afskaplega ánægð með að málið fór í þennan farveg,“ segir Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður á Amtsbókasafninu á Akureyri, en vinna hófst á ný á starfsstöð á safninu sem sinnt hefur skönnun á dagblöðum og tímaritum. Engin starfsemi var á stöðinni í tvo mánuði í lok nýliðins árs þar sem ekki fékkst fjárveiting til að halda henni áfram.  Nú hefur Alþingi lagt fram 10 milljónir króna og segir Hólmkell að með því framlagi sé starfsemin tryggð út þetta ár.  Tveir starfsmenn starfa við skönnunina og er nú verið að skanna landsmálablöð.

Amtsbókasafnið lagði í töluverðan stofnkostnað vegna verkefnisins á sínum tíma auk þess að leggja til húsnæði undir starfsemina og greiða laun starfsfólks, en það var gert samkvæmt samningi við Landsbókasafnið sem greiddi kostnað við verkefnið og á m.a. tækin sem notuð eru.  

„Það er frábært að við getum haldið áfram þessari starfsemi,“ segir Hólmkell, en afraksturinn getur almenningur nýtt sér inn á vefsíðunni timarit.is, þar sem hægt er að skoða blöð og tímarit sem hafa verið skönnuð inn í gagnabanka. Hólmkell segir að vefurinn sé mikið notaður og margir nýti sér hann bæði til skemmtunar og fróðleiks.

Nýjast