Landsfundur Vinstri grænna hefst á Akureyri í dag
Sjöundi landsfundur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hefst í Hofi á Akureyri kl. 16.00 í dag og stendur fram á sunnudag. Yfirskrift fundarins er: Græn framtíð gott samfélag. Opnunarhátíð fundarins hefst kl. 17.30 og þá heldur Steingrímur J Sigfússon formaður ræðu sína. Í kvöld verða almennar stjórnmálaumræður, í fyrramálið fer fram kosning formanns, varaformanns og annarra stjórnarmana en fundinum lýkur á sunnudag með afgreiðslu ályktana.
Fjölmargar ályktanir liggja fyrir fundinum, m.a. frá flokksfélögum á Akureyri, þeim Andreu Hjálmsdóttur, Dýrleifi Skjóldal, Edwardi H. Huijbens, Guðrúnu Þórsdóttur, Klöru S. Sigurðardóttur, Kristínu Sigfúsdóttur og Sóleyju Björk Stefánsdóttur. Ályktanir þeirra eru þessar:
Ályktun um Reykjavíkurflugvöll
Landsfundur VG telur það tímaskekkju eins og staðan er í dag að færa Reykjavíkurflugvöll. Hann gegnir mikilvægu hlutverki fyrir landsbyggðina og eru engar forsendur til að færa starfsemina annað meðan þorri stjórnsýslu og þjónustu er í miðborg Reykjavíkur. Með öflugri samgöngutengingu t.d. með rafmagnshraðlest við Keflavík gætu forsendur breyst.
Ályktun um jöfnuð landsbyggðar og höfuðborgar
Landsfundur VG skorar á ríkisstjórnina að beita sér fyrir jöfnun lífskjara á milli landsbyggðar og höfuðborgar. Er sérstaklega brýnt að:
- Jafna flutningskostnað fyrirtækja á landsbyggðinni og þeirra sem starfa á höfuðborgarsvæðinu.
- Fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni og tryggja starfsemi í heilbrigðis- og menntakerfi á landinu öllu, samhliða mikilli uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu. Tryggja þarf að sú uppbygging komi ekki niður á störfum á landsbyggðinni.
- Standa að baki öflugu menningarstarfi á landsbyggðinni.
- Tryggja gæði og öryggi samgangna milli og innan byggðalaga.
- Við endurskipulagningu fjármálakerfisins þarf sérstaklega að huga að og styðja við bankastafsemi sem starfar á samfélagslegum grunni.
- Að tryggja að fyrirtæki á landsbyggðinni sitji við sama borð og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu varðandi úrvinnslu skulda og endurskipulagningu lána, bæði hvað varðar biðtíma sem og úrvinnsluna í heild.
Ályktun um nýtingu auðlinda á láði og legi
Landsfundur VG vill að gengið verði frá löggjöf um auðlindanýtingu á láði og legi, þar sem tekin verða af öll tvímæli um eignarhald og girt fyrir alla tilburði til einkavæðingar, áður en farið verður að selja landið, gæði þess og auðlindir í hendur einkaaðila.
Ályktun um fátækt á Íslandi
Landsfundur VG vill árétta að fátækt er staðreynd á Íslandi. Við því þarf að bregðast. Það er að myndast þriðja kynslóð á örorku- og atvinnuleysisbótum oggeraþarf sveitarfélögum kleift að brjóta upp þennan vítahring viðvarandi fátæktar og félagslegrar einangrunar. Á þetta að vera algert forgangsmál sem hefur að leiðarljósi að atvinna er mannréttindi. Með því að virkja fólk til vinnu, jafnvel þó að sú atvinna skapi ekki beinar tekjur, kemst fólk út úr vítahring atvinnuleysis og skapar þannig bætt lífsgæði.
Ályktun um kvenfrelsi
Landsfundur VG telur það mikilvægt að bæði kynin komi jafnt að allri stjórnsýslu og leggur því til að 15. grein jafnréttislaga verði breytt á þann veg að þau nái yfir starfshópa á vegum hins opinbera. (Þetta er í tilefni af samsetningu Starfshóps um atvinnumál).
Ályktun um breytingar í opinberri stjórnsýslu
Landsfundur VG hvetur til þess að loforð séu efnd um sameiningu ráðuneyta og hagræðingu innan stjórnsýslunnar.
Ályktun um húsnæðismál
Það eru mannréttindi að fólk hafi til umráða húsnæði. Áherslur þurfa að vera á félagsleg úrræði, því meiri fjölbreytni því betra. Hætt er við að beinar hækkanir á húsaleigubótum fari beint í vasa leigusala. Huga þarf að réttindum leigjenda og tryggja þau. Auka þarf framboð á námsmannaíbúðum og stúdentagörðum.
Ályktun um atvinnuuppbyggingu á Húsavík og Suðurnesjum
Landsfundur VG fagnar áformum um fjölbreytta atvinnustarfsemi á Húsavík og beinir því til ríkisstjórnar að horfa eftir sambærilegum lausnum fyrir þann mikla vanda sem blasir við sveitarfélögum á Suðurnesjum.
Þá leggur starfshópur um málefni Norðurslóða fram ályktun um stefnu Vinstri grænna í málefnum Íslands og norðurslóða:
Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs samþykkir að fela kjörnum fulltrúum hreyfingarinnar að vinna að því að:
Norðurskautsráðið verði eflt.
Háskólinn á Akureyri og samstarfsstofnanir fái svigrúm til að þróa áframhaldandi rannsóknir og kennslu í málefnum norðurslóða.
Ísland marki sér sérstöðu sem miðstöð björgunar og viðbragða við umhverfisslysum á norðurslóðum.
Og að skipaður verði hópur á landsfundi sem móti stefnu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í norðurslóðamálum fyrir landsfund og kosningar 2013.