Sterkari stjórnskipuleg staða landsbyggðarinnar - m.a. með meiri hlutdeild sveitarfélaga í fjárstjórnarvaldinu - er meginstefnumál mitt í framboði til stjórnlagaþings (http://blog.eyjan.is/gislit/2010/10/27/byd-mig-fram-a-stjornlagathing/). Um leið er skapað mótvægi við miðstjórnarvald ríkisins.
Ekkert rætt um landsbyggðina
Fáir frambjóðendur til stjórnlagaþings virðast ræða stöðu landsbyggðarinnar í tengslum við stjórnlagaþingið sem kjósa á til 27. nóvember nk. Með þessari grein vil ég bæta úr því sem landsbyggðarmaður - alinn upp á Akureyri, ættaður að austan og ræktandi á Suðurlandi.
Nú njóta sveitarfélög í orði kveðnu stjórnarskrárvarins sjálfstæðis en þurfa samt að sæta ofríki í samskiptum við ríkið við ákvörðun um tekjustofna og þegar samið er um verkefni sem löggjafinn felur sveitarfélögum að sinna. Í nýlegum pistli mínum á Eyjunni (http://blog.eyjan.is/gislit/2010/11/13/sterkari-sveitarfelog-i-stjornarskra/) kynni ég hvernig skipta má skatt- og fjárveitingarvaldi jafnar á milli ríkis og sveitarfélaga.
Eflum landsbyggðina og jöfnum völdin
Ég vil slá tvær flugur í einu höggi:
1. Jafna völdin með því að draga úr miðstjórnarvaldi ríkisins.
2. Efla héruðin - sveitarfélögin.
Þannig vil ég auka valdajafnvægi og tryggja i að enginn ráði lögum og lofum.
Takmarkað fjárstjórnarvaldFjárstjórnarvald er annars vegar heimild til þess að skattleggja og hins vegar réttur til þess að ákveða fjárveitingar. Í lögum um tekjustofna sveitarfélaga er svigrúm sveitarfélaga til tekjuskatts (útsvars) ákveðið nokkuð þröngt, þ.e. 11,24-13,28% - en þetta er í samræmi við gildandi stjórnarskrá um að tekjustofnar sveitarfélaga skuli ákveðnir með lögum. Fjárveitingarvald sveitarfélaga er ekki mikið rýmra samkvæmt stjórnarskránni þar sem segir að með lögum skuli einnig kveða á um rétt sveitarfélaga til að ákveða hvort og hvernig tekjustofnarnir eru nýttir.
Þegar á reynir er það ríkið - miðstjórnarvaldið - og að endingu Alþingi sem ákveður niðurstöðuna enda þótt ríkið hafi að vísu yfirleitt samráð við sveitarfélög áður en þeim eru fengin ný verkefni - gjarnan verkefni sem ríkið sinnti áður. Sem dæmi má nefna að deilt var um fé sem fylgja átti málaflokki grunnskóla fyrir um hálfum öðrum áratug. Nú er verið að semja um flutning málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.
Ekki lögmál
Þetta er ekkert lögmál. Hví ættu verkefni ríkisins hafi forgang - t.d. miðlæg stjórnsýsla, utanríkisþjónusta, háskólamenntun, heilbrigðisþjónusta o.s.frv. - frekar en nærþjónusta sveitarfélaganna? Ég vil finna leið til þess á stjórnlagaþingi að kveða á um að sveitarfélögin og ríkið semji um hlutdeild hvors um sig í samneyslunni miðað við verkefnin sem hvor aðili sinnir. Með því mætti bæta samningsstöðu sveitarfélaga til þess að sinna nærþjónustu.
Með því að auka jafnræðið milli þessara aðila eflum við umboðsmenn nærþjónustunnar - en fræðimenn hafa einmitt bent á að sveitarfélögin séu elstu stofnanir Íslands sem sáu í öndverðu um grundvallarmál á borð við fjallskil, fátækraframfærslu o.s.frv.
Lausn ef ekki semst
Nú er það þannig að ef samningar nást ekki um verkefni og tekjustofna milli ríkis og sveitarfélaga - þá ræður ríkið. En hvað ef samningar nást ekki í nýju kerfi? Í áðurnefndum pistli nefndi ég nokkra möguleika í því sambandi (sjá: (http://blog.eyjan.is/gislit/2010/11/13/sterkari-sveitarfelog-i-stjornarskra/). Við þurfum að finna lausn sem tæki á því ef samningar næðust ekki milli þessara aðila - þó að tillaga mín sé raunar til þess fallin að báðir aðilar teygi sig betur í samningsátt.
Takmörkun ráðherraræðis
Um aðrar umbótatillögur mínar má lesa í daglegum Eyjupistlum: http://blog.eyjan.is/gislit/.
Sem dæmi má nefna uppskrift að því að takmarka "ráðherraræði." Annars vegar vil ég takmarka (http://blog.eyjan.is/gislit/2010/11/03/meiri-thrigreiningu-hvernig/) heimild ráðherra til þess að leggja frumvörp fyrir Alþingi - þannig að þeir þurfi heimild þingnefndar til þess. Hins vegar vil ég skerða löggjafarvald ráðherra þannig að samráð eða samþykki þingnefndar þurfi til áður en ráðherra setur reglugerð til útfærslu á lögum en þetta er í samræmi við margítrekaðar þingsályktunartillögur Örlygs Hnefils Jónssonar, varaþingsmanns Samfylkingarinnar (http://blog.eyjan.is/gislit/2010/11/11/skerdum-loggjafarvald-radherra/).
Höfundur er frambjóðandi nr. 3249 til stjórnlagaþings.
http://www.kosning.is/stjornlagathing/frambjodendur/#index:G :
***
3249
Fæðingarár:
1969
Sveitarfélag:
201 Kópavogi
Netfang:
gislit@ru.is
Titill:
Talsmaður neytenda
Menntun / starfsreynsla
Talsmaður neytenda frá 2005, framkvæmdastjóri BHM 1998-2005, aðjúnkt við HR frá 2008. Lögfræðingur HÍ 1997, hdl. 1998. MBA próf með áherslu á mannauðsstjórnun HR 2004, vottaður sáttamiðlari 2008, stúdent af mála- og íþróttabraut, Danmörku, 1989.
Hvers vegna býð ég mig fram til stjórnlagaþings?
Jafna þarf völd svo að einn aðili ráði ekki lögum og lofum. Það má gera með auknu sjálfstæði sveitarfélaga. Sömuleiðis er rétt að styrkja stöðu ýmissa hópa gagnvart sterkari aðilum. Sama gildir um umhverfið en sjálfbær nýting sameiginlegra auðlinda á að vera stjórnarskrárvarin. Ég lagði fyrst til í nóvember 2008 að boðað yrði til sjálfstæðs stjórnlagaþings og samdi frumvarp um málið. Það strandaði á málþófi vorið 2009. Því þarf fyrst að bera niðurstöðu stjórnlagaþings undir þjóðina - áður en Alþingi fær það til afgreiðslu til þess að stuðla að því að loks verði af nauðsynlegri heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem ég hef íhugað og fjallað um í um 20 ár.
Ítarefni