Landsbankinn og Innovit í atvinnu- og nýsköpunarátak

Landsbankinn og Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlasetur hafa undirritað samning um atvinnu- og nýsköpunarhelgar. Helgarnar eru samstarfsverkefni Landsbankans, Innovit og sveitarfélaga landsins en fyrirhugað er að halda að lágmarki sex slíkar helgar nú í vetur. Meginmarkmið samstarfsins er að efla frumkvöðlastarf og ýta undir atvinnusköpum á Íslandi.  

Atvinnu- og nýsköpunarhelgarnar eru hugsaðar sem vettvangur til að virkja einstaklinga og frumkvöðla til athafna með því að hvejta og aðstoða þátttakendur við framvindu viðskiptahugmynda. Einnig til þess að skapa vettvang fyrir einstaklinga að skiptast á skoðunum og efla tengsl. Atvinnu og nýsköpunarhelgarnar eru opnar öllum bæði þeim sem eru með viðskiptahugmynd og þeim sem hafa áhuga á að leggja sitt af mörkum við að fullmóta viðskiptahugmynd annarra. Sérfræðingar Landsbankans og Innovits munu veita ráðgjöf á þessum helgum sem og fjöldi frumkvöðla og annarra sérfræðinga.

Í lok hverrar atvinnu- og nýsköpunarhelgar eru veittar viðurkenningar fyrir bestu hugmyndirnar í nokkrum flokkum. Í framhaldi geta þátttakendur haldið áfram að þróa sínar viðskiptahugmyndir og fengið til þess ráðgjöf frá Innovit og Landsbankanum með það að markmiði að sem flestar viðskiptahugmyndir verði að veruleika. Samstarfsaðilar verkefnisins vonast eftir því að sem flestir mæti og taki þátt í að efla atvinnusköpun á hverju svæði fyrir sig. Fyrsta atvinnu- og nýsköpunarhelgin í vetur fer fram á Suðurnesjum þann 30. september nk. Hægt er að skrá sig sem þátttakanda á helgunum á vefsíðunni anh.is.

Nýjast