Landeigendur tveggja jarða í Svalbarðsstrandarheppi stefna Skógræktarfélagi Eyjafjarðar

Jón Heiðar Rúnarsson og Ingi Jóhannsson þegar hafist var handa við að ryðja Vaðlareit haustið 2021 t…
Jón Heiðar Rúnarsson og Ingi Jóhannsson þegar hafist var handa við að ryðja Vaðlareit haustið 2021 til að útbúa hjóla- og göngustíg. Mynd MÞÞ

Landeigenda tveggja jarða í Svalbarðsstrandarhreppi, Veigastaða og Halllands hafa stefnt Skógræktarfélagi Eyfirðinga og var málið dómtekið í Héraðsdómi Norðurlands eystra í byrjun mars. Gert er ráð fyrir að málflutningur fari fram  í lok þessa mánaðar. Vaðlaskógur sem er í eigu skógræktarfélagsins liggur í landi fjögurra jarða í tveimur sveitarfélögum, auk Veigastaða og Halllands eru það Ytri- og Syðri Varðgjá í Eyjafjarðarsveit. Fram kemur í ályktun frá Skógræktarfélaginu að stefnan sé til komin vegna tilrauna landeigenda til að hafa af félaginu umráðarétt yfir landi skógarins.

„Réttur fólks til að stefna félaginu er skýr og við virðum hann,“ segir Ingi Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyjafjarðar. Hann segir að gera megi ráð fyrir niðurstöðu í Héraðsdómi næsta haust gangi allt eftir en líkur á að haldið verið áfram með málið upp á næsta dómstig séu líklegar, þannig að gera megi ráð fyrir langvarandi málaferlum og dýrum.

 Árið 1936 létu þáverandi landeigendur áðurnefndra jarða af hendi umráðarétt yfir landi Vaðlaskógar. Fyrir síðustu jól sögðu landeigendur jarðanna tveggja upp þessum samningi.

Saga skógræktar á Íslandi skrifuð í skóginn

Félagið hóf strax ári eftir að samningur var gerður vinnu við að girða af reitinn og rækta skóg, og hefur æ síðan ræktað upp Vaðlaskóg, sinnt grisjun, lagt stíga, brúað læki og sinnt öðrum störfum sem ræktuninni fylgja. Vaðlaskógur er elsti ræktaði skógarreiturinn í umsjón félagsins en þar var ekki að finna eina einustu trjáplöntu þegar ræktun hófst. „Saga skógræktar á Íslandi er skrifuð í Vaðlaskóg, en ræktun hans hófst fyrir  90 árum og þá voru menn að taka fyrstu skrefin í skógrækt og gera tilraunir með alls kyns plöntur til að sjá hvað gengi upp,“ segir Ingi. 

„Skógrækt krefst þolinmæði og er verkefni margra kynslóða og er í raun eilífðarverkefni. Einmitt þess vegna voru landeigendur og stjórnarmenn árið 1936 svo forsjálir að útbúa umráðaréttarsamninginn án uppsagnarákvæðis. Aðilar samningsins áttuðu sig fyllilega á því að þessu samningssambandi yrði ekki slitið nema í því eina undantekningartilfelli að starfsemi skógræktarfélagsins myndi leggjast niður,“ segir í ályktun stjórnar Skógræktarfélags Eyjafjarðar.

 Stöndum vörð um þessa náttúruperlu

 Frá upphafi hefur markmiðið með ræktun skógarins meðal annars verið að skapa yndisreit fyrir almenning til að njóta útivistar í skjóli trjánna. Skógrækt skapar mikil verðmæti. Efnahagsleg- og ekki síst óefnisleg verðmæti s.s. skjól fyrir fólk og fugla, gróður og smádýr. Óeigingjarnt starf skógræktarfélagsins síðastliðin 87 ár hefur orðið til þess að Vaðlaskógur er nú mjög dýrmætur. Stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga mun þess vegna standa vörð um Vaðlaskóg sem er óviðjafnanleg náttúruperla í hjarta Eyjafjarðar.

 

 


Athugasemdir

Nýjast