Lagt til að tillaga að deiliskipulagi Drottningarbrautarreits verði samþykkt

Meirihluti skipulagsnefndar Akureyrarbæjar samþykkti á fundi sínum í vikunni að leggja til við bæjarstjórn, að tillaga að deiliskipulagi suðurhluta miðbæjarins – Drottningarbrautarreits, verði samþykkt. Afgreiðla skipulagsnefndar verður tekin til afgreiðslu í bæjarstjórn á næsta þriðjudag. Svæðið sem deiliskipulagið nær til afmarkast af Drottningarbraut í austri, Kaupvangsstræti í norðri, lóð Akureyrarkirkju og Eyrarlandsvegi í vestri og lóðarmörkum Hafnarstrætis 65 og Austurbrú í suðri.

Í tillögunni er gert ráð fyrir blandaðri byggð íbúða, verslunar, þjónustu og stofnana. Nýjar íbúðir verða meðfram Drottningarbraut og við Hafnarstræti. Einnig er gert ráð fyrir hótelbyggingu syðst á reitnum og nýrri aðkomugötu, húsagötu, samsíða Drottningarbraut.

Sóley Björk Stefánsdóttir V-lista lagði fram eftirfarandi bókun á fundi skipulagsnefndar. “Þó ánægjulegt sé að reiturinn sé nú skipulagður án bensínstöðvar og lúgusjoppu er ýmislegt sem betur má fara. Ég tek undir athugasemdir Húsafriðunarnefndar og fjölmargra íbúa varðandi áætlaða hótelbyggingu í suðurenda reitsins sem brýtur gegn byggðarmynstri og sjónarrönd miðbæjarins sem byggir á hækkandi hæðarlínu í átt til miðbæjar auk þess að vera í ósamræmi við núverandi byggð hvað varðar stærðarhlutföll. Varðandi íbúabyggð á austanverðum reitnum tel ég mikilvægt að byggt verði í gömlum stíl af virðingu við þau fallegu gömlu hús sem nú marka ásýnd suðurhluta miðbæjarsvæðisins og eru góð dæmi um sérkenni í húsagerðarlist Akureyringa frá síðustu aldamótum. Ég legg til að sérstök ákvæði verði sett í greinargerð deiliskipulagsins um að ytra byrði nýju húsanna svo sem, klæðning, gluggagerð, geretti og annað skraut eigi sér fyrirmynd í þeim húsum á svæðinu sem njóta hverfisverndar. Ég sit því hjá við afgreiðslu málsins.”

 

Nýjast