Lagt til að bæjarstarfsmenn taki sér launalaust leyfi einu sinni í mánuði

Forsvarsmenn Akureyrarbæjar leita nú allra leiða til að bregðast við samdrætti í tekjum bæjarfélagsins en samkvæmt áætlun næsta árs, er gert ráð fyrir rekstrarhalla upp á um 450 milljónir króna. Í morgun voru 70 stjórnendur hjá bænum boðaðir til fundar og þar sem kynntar voru fyrir þeim hugmyndir um sparnað varðandi launakostnað, í þess að grípa þurfi til uppsagna.  

Sú hugmynd var lögð fram að starfsmenn bæjarins taki sér einn launalausan frídag í mánuði, eða sem nemur 5% launaskerðingu. Hjá Akureyrarbæ starfa um 1.400 manns og með þessari breytingu væri hægt að ná fram sparnaði á næsta ári, sem nemur 150-200 milljónum króna. Engin ákvörðun hefur verið tekin í málinu en stjórnendurnir munu á næstu dögum ræða þessa hugmynd við þá starfsmenn bæjarins sem undir þá heyra. Um miðjan apríl verður svo haldinn annar fundur, þar sem farið verður yfir viðbrögð starfsmanna bæjarins.

Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri og Hermann Jón Tómasson formaður bæjarráðs kynntu þessa hugmynd á blaðamannafundi í morgun og þar kom fram að þau eru að leita allra leiða til að ná fram sparnaði í rekstri án þess að þurfa að grípa til uppsagna. Á þessu ári er einnig fyrirsjánlegur rekstrarhalli hjá bænum upp á 300-400 milljónir króna. Gangi þetta eftir, er stefnt að því að þessi breyting á högum starfsmanna, komi að einhverju leiti fram strax næsta haust.

Nýjast