Lagning Dalsbrautar yrði í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins
"Miðað við umræður virðist því lítið haldið á lofti að margir sjálfstæðismenn styðja lagningu Dalsbrautar á milli Miðhúsabrautar og Þingvallastrætis. Það eru síðan enn færri sem vita að fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar samþykkti framboðslisti sjálfstæðismanna á Akureyri að lagning Dalsbrautar yrði eitt af stefnumálunum. Í vinnslu stefnuskrárinnar týndist þetta stefnumál af einhverjum orsökum. Kom það flatt upp á marga," segir Unnsteinn Jónsson m.a. í grein sem hann skrifar á vef flokksins.
Unnsteinn skipaði 10. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar og er fyrrverandi nefndarmaður í skipulagsnefnd. Ólafur Jónsson bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, segir að það séu ekki ný tíðindi að það hafi verið skiptar skoðanir meðal sjálfstæðismanna á Akureyri um lagningu Dalsbrautar, líkt og í öðrum flokkum. "Stefnuskráin verður til eftir prófkjör í flokknum og vinnu í kjölfar þess og endurspeglar megináherslur flokksins á hverjum tíma. Það er mikill samhljómur með mér og Unnsteini varðandi áhersluna um að hafa götuna alla með hámarkshraða 30 km/klst og í samræmi við tillögur mínar í þeim efnum í bæjarstjórn. Því miður gékkst L-listinn ekki inn á það," segir Ólafur.
Hann segir að aðrar tillögur Unnsteins um nánari útfærslu götunnar séu góðra gjalda verðar en gangi ekki upp að svo komnu máli. "Í einhverjum tilvikum vegna mikils aukakostnaðar í ljósi þess að gatan er ekki nauðsynleg vegna umferðarþunga í fyrirsjáanlegri framtíð og eins eftir nánari skoðun verkfræðinga s.s. varðandi hringtorg á gatnamótum Þingvallastrætis og Dalsbrautar. Tillögur hans varðandi það að hnika götunni eitthvað til um nokkra metra, sem tilraun til að lágmarka skerðingu og nýtingu á grænum svæðum eða sem sárabót til KA, get ég ekki metið enda hef ég ekki sömu þekkingu á rekstri knattspyrnufélags líkt og Unnsteinn," segir Ólafur.
Grein Unnsteins má finna á: islendingur.is