Lagaleg óvissa ríkir um hvort heimilt er að gefa út framkvæmdaleyfi
Viss óvissa um málsmeðferð skapast einnig af því að ný skipulagslög hafa tekið gildi en engin reglugerð hefur verið sett til að skýra framkvæmd þeirra. Sveitarstjórn samþykkti að fela sveitarstjóra að afla álits skipulagsstofnunar og hlutlauss lögfræðings með góða þekkingu á framkvæmdaleyfismálum á því hvenær henni sé heimilt að gefa út framkvæmdaleyfi.
Á fundi sveitarstjórnar var jafnframt farið var yfir þær upplýsingar sem aflað hefur verið vegna umsóknar Vegagerðarinnar fyrir hönd Vaðlaheiðarganga hf. um framkvæmdaleyfi vegna ganga undir Vaðlaheiði. Guðmundur Heiðreksson, fulltrúi framkvæmdaraðila, mætti á fundinn og fór yfir stöðu mála og svaraði spurningum sveitarstjórnar um framkvæmdina. Hann lýsti einnig tillögum Vegagerðarinnar að því hvernig leiða megi hjólreiða- og göngustíg undir þjóðveginn, með hólk undir hann norðan hringtorgsins. Sveitarstjórn er sátt við slíka útfærslu og óskar eindregið eftir því að hönnunarteikningar sem lagðar verða til grundvallar framkvæmdaleyfi verði uppfærðar með hliðsjón af því. Guðmundur Heiðreksson lagði ríka áherslu á að framkvæmdaleyfi yrði gefið út sem fyrst.