Eik fasteignafélag hf. og Læknastofur Akureyrar hafa undirritað leigusamning um hálfa efri hæðina í verslunar- og þjónustumiðstöðinni Glerártorgi á Akureyri. Í fréttatilkynningu segir að samningurinn hafi í för með sér mikla og góða uppbyggingu fyrir Glerártorg. Læknastofur Akureyrar flytja starfsemi sína þangað í ágústmánuði í öfluga nútímalega læknastofu sem verður mun stærri en sú sem rekin er fyrir á Akureyri.
„Læknastofur Akureyrar eru fyrirtæki sérfræðilækna, sem hafa að markmiði að vera leiðandi innan læknisfræðilegrar- og annarrar heilsutengdrar þjónustu. Starfsemin samanstendur af hefðbundnum læknastofum með sérfræðimóttöku og skurðstofu, þar sem ferilverkaaðgerðir eru framkvæmdar. Einnig munu ýmsir sérfræðingar hafa aðstöðu á læknastofunum,“ segir í tilkynningu.
Guðni Arinbjarnar bæklunarskurðlæknir og einn eigenda Læknastofa Akureyrar, sagði við undirritun leigusamnings að hann hefði lengi verið með augastað á að færa starfsemi sína í stærra og betra húsnæði á Akureyri og væri því afar spenntur að hefja starfsemi á Glerártorgi. Þetta væri því gleðiefni bæði fyrir hann og viðskiptavini sem kæmu víða að en einkum frá Norður- og Austurlandi.
Eyjólfur Gunnarsson, framkvæmdastjóri hjá Eik fasteignafélagi, sagði að samningurinn væri afar jákvæður fyrir Glerártorg þar sem fjöldi gesta á Glerártorgi myndi aukast talsvert við komu Læknastofa Akureyrar. Umsvif verslunarmiðstöðvarinnar á Glerártorgi væru í sókn og þessi nýi leigutaki er góð viðbót við þá fjölbreyttu verslun og þjónustu sem í boði er á Glerártorgi.