Opnun tilboða í uppsetningu nýs aðstöðuhúss fyrir siglingaklúbbinn Nökkva fór fram 10. ágúst síðast liðinn. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á tæpar 190 milljónir króna og bárust tvö tilboð sem bæði voru yfir kostnaðaráætlun.
BB Byggingar buðu 220,6 milljónir og Sigurgeir Svavarsson 204,3 milljónir og samþykkti Umhverfis- og mannvirkjaráð að taka tilboði Sigurgeirs Svavarssonar ehf. með fyrirvara um samþykki bæjarráðs.
Málið var áður á dagskrá bæjarráðs 27. ágúst sl. og var afgreiðslu þá frestað. Bæjarráð tók málið aftur fyrir á fundi sínum í gær 10. september og samþykkti þá bókun umhverfis- og mannvirkjaráðs með 5 samhljóða atkvæðum
Húsið verður staðsett á fyllingu við núverandi svæði Nökkva við Drottningarbraut. Um er að ræða tæplega 403 m² CLT einingarhús.